Innlent

Sautján ára á 150 kílómetra hraða á Miklubraut

Lögreglan virðast hafa haft í nógu að snúast í nótt.
Lögreglan virðast hafa haft í nógu að snúast í nótt. Vísir/Kolbeinn Tumi
Upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi fékk lögregla tilkynningu um að þrír menn væru að ganga í skrokk á manni í austurborginni en ekkert var um að vera þegar lögregla mætti á staðinn. Þar var þó einn útlendingur sem reyndist við leit vera með hnúajárn og lítilræði af fíkniefnum á sér og var málið afgreitt með sekt á staðnum.

Þá var ölvaður og æstur maður handtekinn í austurborginni um eitt leitið þar sem hann var að reyna að sparka í bíla og reyndist hann hafa brotið og bramlað innandyra hjá sér og fékk að gista fangageymslu. Tilkynnt var um innbrot í skóla í austurborginni en ekki er ljóst hvort nokkru var stolið.

Sömu sögu er að segja um kaffihús í austurborginni. Þá var mikið ölvuð og vímuð kona sem neitaði að fara af fyrirmælum lögreglu handtekin í Grafarholti í nótt en hún hafði verið með hávaða og læti.Þó nokkrir voru stöðvaðir vegna ölvunaraksturs í nótt og þeir færðir til sýnatöku.

Þá var sautján ára piltur stöðvaður eftir að hafa ekið á 150 kílómetra hraða á Miklubraut í gærkvöldi en hann hafði einungis haft ökuskírteini í einn mánuð. Og annar ungur ökumaður sem lá á að komast undir stýri var stöðvaður um klukkan hálf fjögur. Hann reyndist aðeins sextán ára gamall en með próftökuheimild og ók lögregla honum til síns heima. Og þá voru bíllyklar teknir af manni sem stöðvaður var við hefðbundið eftirlit þar sem hann reyndist vera í ökubanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×