Viðskipti innlent

„Tóm vitleysa“ að forsíðufrétt DV hafi haft áhrif á atburðarásina

Kolbeinn Tumi Daðason og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vísir/gva
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála-og efnahagsráðherra, hafna því báðir að forsíðufrétt DV síðastliðinn föstudag hafi haft áhrif á atburðarásina vegna losunar fjármagnshafta. Áætlun vegna hennar var kynnt á blaðamannafundi í hádeginu í dag.

Í viðtölum á RÚV að loknum fundinum voru ráðherrarnir spurðir út í forsíðufréttina þar sem mikla athygli vakti að þing var kallað óvænt saman í gærkvöldi. Á fundinum var samþykkt frumvarp sem ætlað er að koma í veg fyrir að hægt sé að koma fjármunum úr landi á svig við lög um fjármagnshöft áður en að frumvarpið sem kynnt var í dag verður að lögum.

Bjarni sagði það ekki rétt að forsíðufrétt DV hafi haft áhrif á framvindu mála enda væru það í sjálfu sér ekki nýjar fréttir að það ætti að leggja á stöðugleikaskatt.

Frumvarpið löngu tilbúið

Sigmundur sagði það svo „tóma vitleysu“ að fréttin hafi haft eitthvað um málið að segja. Frumvarpið hafi verið tilbúið „fyrir löngu“ og að ríkisstjórnin hafi einfaldlega einsett sér að hafa frumvörpin eins nálægt hvort öðru í tíma og hægt væri. Þar af leiðandi hafi þing þurft að koma saman í gær þar sem kynna skyldi frumvarp um stöðugleikaskatt í dag. Þetta sé því allt samkvæmt áætlun.

Tekur undir orð Steingríms um leka í DV

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segist í samtali við Vísi taka að öllu leyti undir orð Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns Vinstri grænna, á Alþingi í gær um að Seðlabanki Íslands hefði talið nauðsyn á að herða reglur um gjaldeyrishöft vegna leka í DV um stöðugleikaskattinn. Vísaði Steingrímur, máli sínu til stuðnings, í orð Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, sem kom á fund efnahags-og viðskiptanefndar í gær.

„Við lákum ekki,” sagði Steingrímur og sagði samráðsnefnd ekki hafa verið kallaða saman í sex vikur.

„Þarna er á ferðinni hættulegur, skaðlegur og raunverulegur leki,” sagði Steingrímur og kallaði eftir því að forsætisráðherra útskýrði hvernig það getur gerst að út úr hinu lokaða ferli skuli koma skaðlegur leki að því tagi beint í gegnum blaðamann DV og á forsíðu DV.


Tengdar fréttir

Bjarni Benediktsson: „Mikil og ánægjuleg tímamót“

Bjarni Benediktsson, fjármála-og efnahagsráðherra, sagði á blaðamannafundi í hádeginu að stjórnvöld hafi reynt að nálgast vandamálið vegna hafta með það að leiðarljósi að koma með heildstæða lausn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×