Viðskipti innlent

Bjarni Benediktsson: „Mikil og ánægjuleg tímamót“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. fréttablaðið/pjetur
Bjarni Benediktsson, fjármála-og efnahagsráðherra, sagði á blaðamannafundi í hádeginu að stjórnvöld hafi reynt að nálgast vandamálið vegna hafta með það að leiðarljósi að koma með heildstæða lausn. Þá sagði hann hagsmuni þjóðarinnar vera í öndvegi og að þær aðgerðir sem stjórnvöld ráðast nú í vegna losunar hafta muni hafa víðtæk áhrif fyrir almenning og atvinnustarfsemi í landinu.

„Þetta eru mikil tímamót í efnahagslegu tilliti og ánægjuleg líka. [...] Með þessum aðgerðum verða horfurnar bjartari,“ sagði Bjarni.

Sjá einnig: Aðgerðirnar geta haft raunveruleg áhrif á daglegt líf

Fjármálaráðherra sagði auðveldara að kynna til sögunnar höft en aflétta þeim. Rifjaði hann upp að þegar höftin voru samþykkt í nóvember 2008 hafi menn talið að þau yrðu til sex mánaða og í mesta lagi til tveggja ára. Nú hafi Ísland hins vegar verið lokað inn í höftum í tæp sjö ár.

Bjarni sagði jafnframt að losun hafta sé risavaxið vandamál enda sé það til komið vegna fordæmalausra aðstæðna í kjölfar gjaldþrota íslensku viðskiptabankanna haustið 2008. Vísaði fjármálaráðherra meða annars til þess að gjaldþrotin hafi hvert um sig ratað á lista yfir tíu stærstu gjaldþrot sögunnar.

Fjármálaráðherra lagði áherslu á það að efnahagslífið muni ekki þurfa að aðlaga sig upp á nýtt vegna uppgjörs á slitabúum bankanna í tengslum við losun hafta og bætti við:

„Lausnirnar þurfa að uppfylla samfélagslegar væntingar og vera póltískt framkvæmanlegar.“

Að mati Bjarna uppfylla þær lausnir sem stjórnvöld ráðast nú í  þessi skilyrði enda sé um heildstæða áætlun að ræða vegna losunar haftanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×