Viðskipti innlent

Forsætisráðherra: Aðgerðirnar geta haft raunveruleg áhrif á daglegt líf

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Allt sem fæst í aðgerðum stjórnvalda verður notað til að greiða niður skuldir ríkisins.
Allt sem fæst í aðgerðum stjórnvalda verður notað til að greiða niður skuldir ríkisins. Vísir/GVA
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði stöðugleikaskattinn og þær aðgerðir sem kynntar voru í dag væri stærsti liðurinn í því verkefni að renna treystum stoðum undir íslenskt efnahagslíf.



„Þetta eru mál sem geta haft raunveruleg og mikil áhrif á daglegt líf fólks,“ sagði hann á fréttamannafundi í Hörpu þar sem aðgerðir stjórnvalda voru kynntar. „Heildarumfang aðgerðanna nemur 1.200 milljörðum.“

Sjá einnig: 39 prósent skattur lagður á eignir slitabúanna




„Þau geta fram að áramótum gert nauðasamninga sem uppfylla ýmis stöðugleikaskilyrði, meðal annars með greiðslu sérstaks stöðugleikaframlags,“ sagði hann og bætti við að ef þau gerðu það ekki myndi 39 prósent stöðugleikaskattur leggjast á slitabúin. Samtals næmi skatturinn rúmum 800 milljörðum króna.



Sigmundur sagði að skatturinn væri í eðli sínu ólíkur útgönguskatti eins og hefur verið til umræðu. „Því hann leggst á eignir búanna í eitt skipti,” sagði hann og sagði að skatturinn skapaði sterkan hvata til að slitabúin klári uppgjör.



Samkvæmt tilkynningu til kauphallarinnar segir að ríkisstjórnin hafi samþykkt á fundi sínum að leggja tvö frumvörp fyrir Alþingi í dag sem muni saman leggja grundvöll að heildstæðri aðgerðaráætlun um afnám fjármagnshafta.



Gert er ráð fyrir að slitabúum gefist kostur á að ljúka nauðasamningum fyrir næstu áramót og þá fengið að flytja fjármagn að því gefnu að þau uppfylli sérstök stöðugleikaskilyrði. Annars verða þau felld undir 39 prósent stöðugleikaskatt sem leggst í eitt skipti á heildareignir þeirra.



Stöðugleikaskilyrðin felast meðal annars í því að greitt verði einhverskonar stöðugleikaframlag og að neyðarlán frá ríkinu verði endurgreidd. Þeir fjármunir sem fást með þessum aðgerðum verða nýttar til að greiða niður skuldir ríkissjóðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×