Lífið

Bam Margera kemur fram á Secret Solstice

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Bam Margera kemur til landsins í júní.
Bam Margera kemur til landsins í júní.
Nýjar hljómsveitir og listamenn hafa boðað komu sína í Laugardalinn á Secret Solstice hátíðina sem fer fram í næsta mánuði. 

Líklega má fullyrða að þekktasti listamaðurinn sem er kynntur til leiks í þessari atrennu sé Bam Margera sem er heimsþekktur fyrir að hluti af Jackass-genginu. Bam var einnig með sína eigin þáttaröð á MTV-sjónvarpsstöðinni sem naut gífurlegra vinsælda. 

Hann er meðlimur sveitarinnar Earth Rocker, en undanfarin ár hefur hann snúið sér meira að tónlistinni.

Bam hefur vakið mikla athygli hér á landi. Hann heimsótti Ísland árin 2012 og 2013. Í fyrra skiptið olli hann tjóni á Land Cruiser bifreið í eigu bílaleigunnar Hertz og var handtekinn þegar hann kom til landsins. Hann var aftur á móti hinn rólegasti þegar hann var handtekinn og gerði upp skuldina við bílaleiguna.

Sjá einnig:„Ég hefði eins getað keypt fjandans bílinn"



Hér má sjá Earth Rocker á sviði, en umfjöllun um aðrar sveitir sem koma á Solstice heldur áfram þar fyrir neðan.




Diskósveitin Hercules & Love Affair mun einnig mæta til leiks á Secret Solstice. Sveitin, sem var stofnuð árið 2004, hefur vakið athygli víða um heim og átt lög sem hafa komist á helstu vinsældarlista í Bandaríkjunum, Ítalíu og Bretlandi, svo dæmi séu tekin. Sveitin hefur meðal annars unnið með John Grant og lék á Iceland Airwaves árið 2010 við góðan orðstír. 

Hér má sjá myndbandið við lagið Do you feel the same, sem kom út í nóvember í fyrra. Umfjöllun um nýjar sveitir og listamenn sem hafa boðað komu sína heldur áfram þar fyrir neðan.



Breski rapparinn Stormzy mun einnig koma á Solstice og ættu gestir hátíðarinnar að gefa honum gaum. Þessi 22 ára gamli rappari hefur verið að gera góða hluti í Grime-senunni bresku. Þrátt fyrir að hafa einungis gefið út svokallað mixtape og EP-plötu, sem báðar voru gefins á netinu, hafa lögin hans ratað á vinsældarlista í heimalandi hans. 

Lagið hans Know me from hefur vakið mjög mikla athygli og hefur myndbandið við lagið, sem má sjá hér að neðan, verið spilað yfir milljón skipta á Youtube.

Sem fyrr heldur umfjöllun um fleiri sveitir sem koma á Solstice áfram fyrir neðan.



Serge Devant frá New York borg kemur einnig, en hann hefur gefið út remix fyrir tónlistarmenn eins og Lana Del Ray og unnið með nöfnum eins og Jamie Jones og Lee Foss.

Fjöldi íslenskra listamanna mun einnig koma fram á hátíðinni í ár. Nú bætast við þrettán íslensk nöfn. Ber þar einna helst að nefna rafpopparann Berndsen en hann er um þessar mundir að vinna í nýrri plötu sem er væntanleg á þessu ári. Þá munu aðdáendur íslenskrar hip-hop tónlistar ekki vera sviknir því á meðal tilkynntra atriða eru  Reykjavíkurdætur og hinn svokallaði afi íslenska rappsins Sesar A.

Þá hafa einnig bæst í danstónlistarflóruna Orang Volante, Hidden People, og RVK DNB hópurinn sem samanstendur af Plasmic, Agzilla, DJ Andre og DJ Elvar. Loks ber að nefna söngkonuna  Láru Rúnarsdóttur en hún er að gera góða hluti um þessar mundir og lag hennar Frelsi hefur fengið mikla spilun á útvarpsstöðvum landsins undanfarna mánuði.

Sjá má tilbúinn lista yfir alla tónlistarmenn sem koma fram á hátíðinni á heimasíðu hennar www.secretsolstice.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×