Skoðun

Ljósmæður á Fósturgreiningardeild

Kristín Rut Haraldsdóttir skrifar
Á Íslandi í dag tekur nám ljósmæðra sex ár í Háskóla Íslands. Ljósmæðrastarfið er mjög fjölbreytt og hafa margar ljósmæður farið í frekara nám til að sérhæfa sig í starfi.

Á Fósturgreiningardeild Kvennadeildar LSH starfa ljósmæður sem hafa sérhæft sig í ómskoðunum þungaðra kvenna. Þetta viðbótarnám tekur um eitt og hálft ár og sækja þarf námskeið erlendis og  verklega þjálfun sem fer fram á LSH undir leiðsögn reyndrar ljósmóður. Uppfylla þarf ákveðnar kröfur til að fá starfsréttindindi og er deildin í samstarfi við Fetal Medicine Foundation í Bretlandi og þarf hver ljósmóðir að senda þeim árlega yfirlit yfir sínar skoðanir til að viðhalda starfsréttindunum. Með því er verið að tryggja gæði skoðananna.

Á Fósturgreiningardeild LSH eru framkvæmdar tæplega 11 þúsund ómskoðanir á ári og eru þær flestar í höndum ljósmæðra. Á deildinni starfa einnig fæðingarlæknar sem hafa sérhæft sig í fósturgreiningum. Sjö ljósmæður starfa á deildinni og eru þær einu ljósmæðurnar á landinu sem hafa fullgild réttindi til að starfa á Fósturgreiningardeild LSH.

Mannauðurinn er því dýrmætur í hverjum starfsmanni, því langan tíma tekur að þjálfa hvern og einn. Í þessu starfi er einungis unnið á dagvinnutíma og því eru möguleikar á yfirvinnu eða vaktaálagi engir. Því hlýtur það að vera krafa okkar ljósmæðra að atvinnurekendur METI MENNTUN TIL LAUNA,þannig að allar ljósmæður getið lifað af  launum sínum, líka þær sem hafa sérhæft sig á sviði þar sem eingöngu er starfað í dagvinnu.




Skoðun

Sjá meira


×