Innlent

Leggja fram tillögu um hinsegin fræðslu í Árborg

Birgir Olgeirsson skrifar
Eggert Valur Guðmundsson er oddviti Samfylkingarinnar í Árborg.
Eggert Valur Guðmundsson er oddviti Samfylkingarinnar í Árborg. Vísir/Pjetur
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Bjartrar framtíðar í Árborg ætla að leggja fram tillögu um eflingu hinsegin fræðslu í grunnskólum sveitarfélagsins á bæjarstjórnarfundi á miðvikudag.

„Hugmyndinafræðin á bak við þetta er ekkert ósvipuð því og var samþykkt í bæjarstjórn Hafnarfjarðar,“ segir Eggert Valur Guðmundsson, oddviti Samfylkingarinnar, í samtali við Vísi um málið en þar vísar hann til samþykktar bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar frá því í apríl um að efla hinsegin fræðslu í grunnskólum bæjarins.

Sjá einnig: Vill útskýra hinsegin fræðslu fyrir hlustendum Útvarps Sögu

Eggert Valur segir að vísað sé til þess í tillögunni, sem lögð verður fram á miðvikudag, að leitað verði til Samtakanna 78 um hvernig best sé að standa að hinsegin fræðslunni. „Ég vonast til að það verði vel tekið í tillöguna og henni verði vísað til fræðslunefndar til nánari útfærslu. Ég veit ekki hvort afgreiðslan verður eins og í Hafnarfirði. Við erum í minnihluta í bæjarstjórn og vonum að það verði vel tekið í þetta,“ segir Eggert.

„Ég á ekki von á miklum átökum í tengslum við þetta. Það er ekkert í spilunum sem segir að það verði það,“ segir Eggert. Hann segir bæjarfulltrúa Samfylkingar og Bjartrar framtíðar telja þessa fræðslu góða fyrir sveitarfélagið.

„Okkur finnst það, með hvaða hætti það verður gert eigum við eftir að vinna enda erum við bara að leggja það til að þetta veðri lagt inn í kerfið og útfært af fræðslunefnd.“

Níu fulltrúar mynda bæjarstjórn Árborgar en þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta. Samfylkingin er með tvo fulltrúa, Framsóknarflokkurinn einn og Björt framtíð einn.


Tengdar fréttir

Hinseginfræðsla í Hafnarfirði

Hafnarfjörður verður fyrsta bæjarfélagið á Íslandi sem mun bjóða nemendum grunnskóla upp á hinseginfræðslu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×