Innlent

Finnst óþarfa nákvæmni að upplýsa hvaða fíkniefni hann prófaði

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Kristján Þór Júlíusson
Kristján Þór Júlíusson 365/Jóhannes Kristjánsson
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Valgerður Rúnarsdóttir læknir á Vogi voru gestir í nýjasta þætti hlaðvarpsins Hip hop og Pólitík að þessu sinni.

Valgerður hætti að drekka þegar hún var í læknanámi og deilir því þeirri reynslu með Þórarni Tyrfingssyni, yfirlækni á Vogi, að vera óvirkur alkóhólisti. 

„Það var dálítið stór ákvörðun að finna sér starfsvettvang í þessu,“ sagði Valgerður sem fór í meðferð meðan hún var í læknanámi. Hún er sérfræðingur í fíknisjúkdómum og hefur hjálpað þúsundum Íslendinga að ná bata frá alkóhólisma sem læknir á sjúkrahúsinu Vogi. 

Kristján Þór, sem neytir áfengis í hófi, var spurður í þættinum hvort hann hefði einhvern tímann neytt fíkniefna. „Ég fíktaði við það þegar ég var í menntaskóla, prófaði það,“ sagði ráðherrann en hann hefur áður upplýst um þetta fikt sitt. 

Var það maríjúana? „Hvaða nákvæmni er þetta? Ég var ekki virkur neytandi. Það var nóg fyrir mig að prófa þetta,“ sagði Kristján.

Hægt er að hlusta á þáttinn með því að smella á spilunarhnapp hér framar eða með því að smella hér.  

Hip Hip og Pólitík er vikulegt hlaðvarp (e. podcast) sem birtist á Vísi. Hlaðvarpið er aðgengilegt undir Podcasts í öllum snjalltækjum frá Apple (iPhone, iPad og iTunes). Hlaðvarpið var vinsælasta hlaðvarp á Íslandi á dögunum samkvæmt mælingum Apple. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×