Innlent

SA býður 47 þúsund á móti sveigjanlegum dagvinnutíma

Heimir Már Pétursson skrifar
SA býður Starfsgreinasambandinu 23,5 prósenta launahækkun sem er sama prósenta og flugmenn fengu ú desember.
SA býður Starfsgreinasambandinu 23,5 prósenta launahækkun sem er sama prósenta og flugmenn fengu ú desember. Vísir
Samtök atvinnulífsins mótmæla því að tilboð þeirra til Starfsgreinasambandsins um 23,5 prósenta hækkun launa sé blekking, eins og framkvæmdastjóri sambandsins hafi fullyrt.  Þetta sé hæsta tilboð sem Samtökin hafi nokkru sinni boðið og hærra en allar samningsniðurstöður frá því á tímum óðaverðbólgu á níunda áratugnum.

Starfsgreinasambandið krefst þess að lágmarkslaun hækki upp í 300 þúsund krónur á næstu þremur árum, eða um 33 þúsund á ári og þar af leiðandi 99 þúsund á samningstímanum.

Í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins segir að þau hafi lagt fram tilboð um 23,5% hækkun dagvinnulauna á þriggja ára samningstíma í kjaraviðræðum við Starfsgreinasambandið, sem þýðir að mánaðarlaunin myndu hækka um 47 þúsund krónur á samningstímanum. Á móti vilja Samtök atvinnulífsins að átta stunda dagvinnutími geti rúmast innan lengri tíma dagsins og yfirvinnuálag verði lækkað umtalsvert.

Í tilkynningu SA segir að með þessu yrðu launakerfin færð nær því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, þar sem vinnutímareglur séu mun sveigjanlegri en hér tíðkist og yfirvinnugreiðslur séu hverfandi.

Í Fréttablaðinu í dag heldur Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS, því fram að tilboðið sé blekking en því fer fjarri að mati SA.

Tilboðið feli í sér raunverulegar kjarabætur.  Meðaldagvinnulaun myndu hækka úr 260 þús.kr. á mánuði í 320 þús.kr. eða um 60 þús.kr. krónur og meðaldagvinnulaun fiskvinnslufólks úr 290 þús.kr. á mánuði í 360 þús. kr., eða um 70 þús. kr.

Þá hafi SA einnig boðið sérstaka hækkun lágmarkstekjutryggingar fyrir fulla dagvinnu sem næði 280 þús.kr. á mánuði í lok samningstímans.

 

Í tilkynningu SA segir að tilboð samtakanna til Starfsgreinasambandsins sé hærra en samtökin hafa nokkru sinni lagt fram frá stofnun þeirra. Jafnframt sé tilboðið hærra en allar samningsniðurstöður í kjarasamningum frá því á tímum óðaverðbólgunnar á níunda áratugnum.

Þess er hins vegar ekki getið að þetta er sama prósenta og laun flugstjóra voru hækkuð um í samningum við Icelandair í desember.

Ef tilboði SA yrði tekið, og það tækist að viðhalda efnahagslegum stöðugleika, segir SA að það yrðu mestu kaupmáttarsamningar síðustu áratuga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×