Innlent

Segir SA beita blekkingum í kjaradeilunni

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Drífa segir bréf SA til félagsmanna innihalda rangar upplýsingar og á mörkum þess að vera löglegt.
Drífa segir bréf SA til félagsmanna innihalda rangar upplýsingar og á mörkum þess að vera löglegt. Fréttablaðið/GVA
„Það færist harka í leikinn þegar Samtök atvinnulífsins eru að senda bréf til atvinnurekenda með röngum upplýsingum,“ segir Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, um tölvupóst sem Björgólfur Jóhannsson, formaður SA, sendi félagsmönnum þann 4. maí og hefur hleypt illu blóði í félagsmenn SGS.

Drífa segir ekki síst alvarlegt að í bréfinu hvetur Björgólfur atvinnurekendur til að tala við starfsfólk sitt um kjaradeiluna.

„Það er á mörkum þess löglega að reyna að hafa áhrif á starfsfólk í kjaradeilu,“ segir Drífa.

Í bréfinu segir Björgólfur að verkalýðshreyfingin hafi hafnað tilboði SA um þriggja ára kjarasamning með verulegri hækkun lágmarkstekjutryggingar og haldi fast í kröfur um tugprósenta hækkanir á skömmum tíma.

Drífa segir bréfið sent til félagsmanna áður en tilboðið barst SGS.

„Á þessum tímapunkti sem Björgólfur sendir bréfið á vorum við ekki búin að sjá tilboðið. Við höfðum aldrei séð það. Þeir höfðu kynnt það einhverjum öðrum.“

Þá ítrekar Drífa að ekki sé um sérstakar láglaunaaðgerðir að ræða í tilboði SA: „Það var samdóma álit hjá okkur í samninganefndinni að þetta væri bara eitthvað grín.“

Samtök atvinnulífsins sendu frá sér fréttatilkynningu í morgun þess efnis að tilboð þeirra væri fjarri því að vera blekking. „Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram tilboð um 23,5% hækkun dagvinnulauna á þriggja ára samningstíma í kjaraviðræðum við Starfsgreinasamband Íslands (SGS), segir í fréttatilkynningunni.

„Innifalið í þeirri hækkun er 8% sérstök hækkun dagvinnulauna, samhliða auknum sveigjanleika vinnutíma og lækkun yfirvinnuálags. Með þeim hætti yrðu grunnlaun hækkuð sérstaklega og vægi dagvinnulauna í heildartekjum myndi aukast. Launakerfin yrðu þannig færð nær því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, þar sem vinnutímareglur eru mun sveigjanlegri en hér tíðkast og yfirvinnugreiðslur eru hverfandi.

Í Fréttablaðinu í dag heldur Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS, því fram að tilboðið sé blekking en því fer fjarri.

Tilboðið felur í sér raunverulegar kjarabætur en samkvæmt því hækkaði lægsti taxti aðildarfélaga SGS um 47 þús.kr. á mánuði á þremur árum.

Meðaldagvinnulaun félagsmanna aðildarfélaga SGS hækkuðu úr 260 þús.kr. á mánuði í 320 þús.kr. eða um 60 þús.kr. krónur og meðaldagvinnulaun fiskvinnslufólks úr 290 þús.kr. á mánuði í 360 þús. kr., eða um 70 þús. kr.

Þá hafa SA einnig boðið sérstaka hækkun lágmarkstekjutryggingar fyrir fulla dagvinnu sem næði 280 þús.kr. á mánuði í lok samningstímans.

Ástæða er til að vekja athygli á því að tilboð SA til SGS er hærra en samtökin hafa nokkru sinni lagt fram frá stofnun þeirra. Jafnframt er tilboðið hærra en allar samningsniðurstöður í kjarasamningum frá því á tímum óðaverðbólgunnar á níunda áratugnum.

Ef tilboði SA yrði tekið, og það tækist að viðhalda efnahagslegum stöðugleika, yrðu það mestu kaupmáttarsamningar síðustu áratuga.“

Drífa segir það hafa verið einróma álit samninganefndar að tilboð Samtaka atvinnulífsins væri ekki tækt til umræðu meðal félagsmanna og ítrekar að tilboðið hafi ekki verið kynnt SGS þegar forsvarsmenn SA sögðu að því hefði verið hafnað.

„Auk þess sem SA lýsti því reyndar yfir að við værum búin að hafna tilboðinu áður en það var lagt fram fyrir samninganefnd SGS. Tvennt sem er gagnrýnivert í tilboðinu: Annars vegar að í því er dagvinnutímabilið lengt mjög og lækkun á yfirvinnuálagi, hins vegar að lögð er meiri áhersla á hækkun tekjutryggingar heldur en hækkun taxta.

Þetta tvennt gerir það að verkum að okkar fólk er lítið nær því að geta unnið fyrir sér á dagvinnulaunum en gert að greiða fyrir launahækkun með lækkun yfirvinnu. Við vissum um leið og við sáum þetta á blaði að það þýddi ekkert fyrir okkur að ámálga þetta við okkar félagsmenn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×