Skoðun

Gróska í Kópavogi á afmælisári

Ármann Kr. Ólafsson skrifar
Kópavogur fagnar sextugsafmæli í ár. Það er ástæða til að fagna og gaman væri að sjá sem flesta gesti í bænum nú um helgina þar sem mikið verður um dýrðir í aðdraganda afmælisdagsins sjálfs, sem er 11. maí. Sérstaklega vil ég bjóða alla velkomna á stórtónleika í Kórnum á sunnudag.



Mikil uppbygging er í Kópavogi um þessar mundir. Í vetur var hafist handa við að undirbúa spjaldtölvuvæðingu grunnskóla bæjarins, afar viðamikið og metnaðarfullt verkefni sem mun gera góða skóla Kópavogs enn betri. Þá hófust í vetur framkvæmdir á Glaðheimasvæðinu svonefnda þar sem bærinn er að undirbúa lóðir fyrir byggingu fjölbýlishúsa en byggingaframkvæmdir hefjast í sumar.



Atvinnulífið blómstrar í bænum. Hér er fjöldi fyrirtækja, stórra og smárra enda sækja íbúar alls staðar af höfuðborgarsvæðinu margvíslega þjónustu í Kópavogi.



Innan tíðar verður kynnt ný menningarstefna og í liðinni viku samþykkti bæjarstjórn metnaðarfulla jafnréttis- og mannréttindastefnu. Það er hefð fyrir því að gera jafnréttismálum hátt undir höfði í Kópavogi, hér var sett á laggirnar fyrsta jafnréttisnefnd landsins fyrir réttum 40 árum síðan og Hulda Jakobsdóttir gegndi hér fyrst kvenna á Íslandi embætti bæjarstjóra, á árunum 1957-1962. Lýðheilsumál eru ofarlega á baugi og er unnið að nýrri lýðheilsustefnu í bænum.



Rekstur bæjarfélagsins gengur vel eins og ársreikningur sýnir, þjónusta við bæjarbúa er góð en sífellt er unnið að því að gera hana betri. 



Það er því með mikill ánægju að Kópavogsbær efnir til afmælistónleika í Kórnum á sunnudag klukkan fjögur. Þar kemur fram fjölbreyttur hópur tónlistarmanna á öllum aldri sem margir eru í fremstu röð tónlistarmanna landsins og allir eiga það sameiginlegt að vera Kópavogsbúar, ýmist núverandi eða fyrrverandi.

Ég vonast eftir því að sjá sem flesta, bæði Kópavogsbúa og aðra góða gesti og veit að tónleikagestir verða ekki sviknir enda dagskráin metnaðarfull og spennandi.



En það verður ekki bara fjör í Kórnum um helgina. Gestum og gangandi verður boðið í afmælisveislu í Smáralind á laugardag, þar verður kaka, kaffi og skemmtiatriði. Gestir sundlauganna fá sérlega góðar mótttökur á laugardag, eldri borgarar bjóða á handverkssýningu um helgina og þríþrautarkeppnin Þríkó verður haldin á sunnudagsmorgni í Vesturbæ Kópavogs. Semsagt líf og fjör um allan bæ.



Sjáumst í Kópavogi




Skoðun

Sjá meira


×