Innlent

Jón Pétur ráðinn skólastjóri: „Bestu meðmæli sem hægt er að fá“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sautján sóttu um stöðu skólastjóra við Réttarholtsskóla.
Sautján sóttu um stöðu skólastjóra við Réttarholtsskóla. mynd/reykjavíkurborg
Jón Pétur Ziemsen, sem í gær var ráðinn skólastjóri Réttarholtsskóla, segist spenntur fyrir komandi tímum. Hann er jafnframt afar þakklátur fyrir allan þann stuðning sem honum hefur verið veittur.

Meirihluti nemenda í Réttarholtsskóla rituðu nafn sitt á undirskriftarlista á dögunum þess efnis að Jón Pétur yrði ráðinn skólastjóri, í ljósi þess að Hilmar Hilmarsson hefði sagt starfi sínu lausu. Listinn var í kjölfarið afhentur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Hlýnaði um hjartarætur

„Ég vissi í rauninni ekki að þau hefðu gert þetta. Mér skilst að þetta hafi verið gert í einhverjum einum kaffitíma og frétti ekki af þessum lista fyrr en þau voru komin með hann til skóla- og frístundasviðs,“ segir Jón Pétur og bætir við að honum hafi hlýnað verulega um hjartarætur þegar honum bárust þessar skemmtilegu fregnir.

Vilhjálmur Stefánsson, Margrét Eva Sigurðardóttir, Styrmir Steinn Sverrisson og Anna María Birgisdóttir afhentu Ragnari Þorsteinssyni sviðsstjóra undirskriftalistann.
„Þetta var mjög skemmtilegt, enda eru þetta bestu meðmæli sem hægt er að fá , allavega sem skólamaður,“ segir hann. Hann segist gera sér far um að kynnast nemendum skólans og af því skýrist líklega velvilji þeirra.

Einhverjar breytingar í farvatninu

Aðspurður hvað framtíðin beri í skauti sér segir hann að einhverra breytinga sé að vænta. Í farvatninu sé til að mynda ný námskrá og einkunnakerfi. „Þetta verður okkar samvinna mín og skólastjórans. Hún hefur alltaf verið mjög mikil á milli okkar. En annars er ég bara sáttur og spenntur. Mjög sáttur við þetta allt saman og vænti góðs samstarfs við alla í skólasamfélaginu, hvort sem það eru krakkarnir, foreldrarnir eða samstarfsfólk,“ segir hann að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×