Enski boltinn

Gary Neville: Manchester United liðið verður bara betra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Juan Mata og Ashley Young.
Juan Mata og Ashley Young. Vísir/Getty
Gary Neville, knattspyrnuspekingur Sky Sports og aðstoðarþjálfari enska landsliðsins, er ánægður með sína gömlu félaga í Manchester United og hann er sáttur með starf knattspyrnustjórans Louis van Gaal.

Manchester United vann 4-2 sigur á nágrönnunum sínum í Manchester City í gær og hefur nú unnið sex deildarleiki í röð. Liðið var lengi í gang undir stjórn Louis van Gaal en nú er liðið komið á mikið flug.

„Á næsta tímabili mun Van Gaal horfa á þessa leiki sem liðið tapaði stigum á þessu tímabili. Miðað við frammistöðu liðsins að undanförnu þá á liðið að geta unnið þá leiki á næstu leiktíð. Manchester United liðið verður bara betra," sagði Gary Neville.

„Sjálfstraustið í liðinu er alltaf að aukast. Það eru leikmenn í klefanum sem hafa unnið titla og þeir munu rifja upp þær minningar þegar frammistaðan og sjálfstraustið er komið aftur inn í liðið," sagði Neville.

„Í þessum leik sáu þeir Louis van Gaal, Juan Mata og Marouane Fellaini allir andrúmsloftið á Old Trafford eins og það á að vera á heimaleik liðsins," sagði Neville.

„Nú veit liðið hvernig stemmningin getur orðið á vellinum og það mun hjálpa liðinu í stórum leikjum í framhaldinu. Svona stuðningur gefur liðinu gríðarlega sjálfstraust," sagði Neville.

Manchester United liðið hefur spilað mjög vel í síðustu leikjum sínum á móti Tottenham, Liverpool, Aston Villa og Manchester City. United-liðið er nú komið upp í þriðja sætið fjórum stigum á undan nágrönnunum í Manchester City.


Tengdar fréttir

Pellegrini: Þetta er mér að kenna

Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, tók sjálfur fulla ábyrgð á slæmu gengi liðsins að undanförnu en liðið tapaði 4-2 á móti nágrönnunum í Manchester United í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×