Enski boltinn

Pellegrini: Þetta er mér að kenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, tók sjálfur fulla ábyrgð á slæmu gengi liðsins að undanförnu en liðið tapaði 4-2 á móti nágrönnunum í Manchester United í gær.

Manchester City var búið að vinna fjóra derby-leiki í röð en náði ekki að rífa sig upp eftir slæmt gengi. Liðið tapaði þarna sínum fjórða útileik í röð og sínum sjötta leik af síðustu átta.

„Þetta er á minni ábyrgð og eina leiðin til að breyta þessu er að fara að vinna aftur leiki. Ég ætla ekki að tala til um mína stöðu hjá félaginu því það skiptir ekki máli núna," sagði Pellegrini við BBC en flestir búast við því að hann sé á sínu síðasta tímabili hjá City.

Manchester City byrjaði leikinn frábærlega og komst í 1-0. Eftir það gaf liðið mikið eftir og það tók United-menn ekki langan tíma að snúa við leiknum.

„Við spiluðum vel í tuttugu mínútur en það er nóg. Við verðum að spila vel allan leikinn og af sama krafti," sagði Pellegrini.

City er dottið niður í fjórða sætið og með sama áframhaldi þarf liðið að hafa áhyggjur að missa af Meistaradeildarsætinu.

„Við höfum áhyggjur en verðum bara að reyna að vinna næsta leik sem er á heimavelli á móti West Ham. Við höfum verið í fyrsta eða öðru sæti allt tímabilið og núna erum við í fjórða sætin. United og Arsenal eiga samt bæði eftir að mæta Chelsea og það eru átján stig ennþá í pottinum. Við megum ekki vera of dramatískir," sagði Pellegrini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×