Körfubolti

Gaf öllum í liðinu sínu sérhönnuð heyrnartól og hátalara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Damian Lillard.
Damian Lillard. Vísir/Getty
Damian Lillard, leikstjórnandi Portland Trail Blazers, kom öllum í liðinu sínu skemmtilega á óvart í morgun.

Portland Trail Blazers er að fara að keppa í úrslitakeppni NBA-deildarinnar um helgina en fyrsti leikurinn á móti Memphis Grizzlies er á sunnudaginn. Portland Trail Blazers þarf að spila tvo fyrstu leikina á útivelli þar sem að Memphis-liðið er með heimaleikjaréttinn.

Lillard ákvað að gefa öllum í liðinu sínu, leikmönnum, þjálfurum og starfsmönnum, bæði sérhönnuð heyrnartól og sérhannaða hátalara í litum liðsins.

Hann mætti á æfingasvæðið seint í gærkvöldi og kom þessum gjöfum fyrir í skápum allra þeirra sem taka þátt í því að vinna fyrir Portland-liði í úrslitakeppninni.

Leikmenn Portland Trail Blazers geta því allir verið í stíl þegar þeir hlusta á tónlist um leið og þeir gera sig klára fyrir mikilvæga leiki.

Damian Lillard er einn allra besti leikstjórnandinn í NBA-deildinni en þessi 24 ára leikmaður er á sínu þriðja ári í NBA-deildinni og var með 21,0 stig og 6,2 stoðsendingar að meðaltali í deildarkeppninni.

Lillard var hetja Portland Trail Blazers í úrslitakeppninni í fyrra þegar þriggja stiga flautukarfa hans sendi Houston Rockets liðið í sumarfrí í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Portland-liðið datt síðan út fyrir verðandi NBA-meisturum san Antonio Spurs í næstu umferð.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×