Innlent

Þór til aðstoðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Varðskipið Þór.
Varðskipið Þór. Mynd/LHG
Varðskipið Þór er nú á leið til aðstoðar við að draga flutningaskipið Hauk í land. Skipið er nú stjórnvana og er statt um fimm sjómílur suður af Dyrhólaey.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að Haukur hafi misst stjórnhæfni á miðvikudaginn, þá statt út af Hornafirði. Skipið var í innsiglingunni að Hornafirði, þegar stýri skipsins festist í beygju. Samkvæmt upplýsingum frá Hornafirði var hætta yfirvofandi, þar sem ölduhæð var mikil og vindur töluverður og flutningaskipið hefði geta rekið í sker.

Starfsmenn hafnarinnar drógu Hauk frá öllum skerjum þar sem akkerum var varpað.

Lóðsinn frá Vestmannaeyjum var sendur austur til að draga Hauk til Hafnarfjarðar. Vegna slæms veðurs og sjólags hefur ferðin gengið illa og var í nótt óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar.

Illa gekk að ráða við Hauk, þar sem stýrið var fast og veður var verra en gert hafi verið ráð fyrir. Um tvö leytið í nótt, slitnaði tógvír Lóðsanns og því var beðið um aðstoð frá Gæslunni. Lóðsinn er hins vegar aftur kominn með tógvír í Hauk og dregur hann nú aftur á bak, því þannig er mun auðveldara að ráða við skipið vegna stýrisins.

Þór er nú á leið suður fyrir land og er og mun taka við toginu eftir um tvo tíma. Haukur verður svo dreginn til Hafnarfjarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×