Innlent

Sýkingin í síldinni drap um 500.000 tonn

Svavar Hávarðsson skrifar
Kap VE veiddi sild úr Vestmannaeyjahöfn áður en hún drapst - mengunarhætta var ástæðan fyrir sérstöku leyfi til veiðanna.
Kap VE veiddi sild úr Vestmannaeyjahöfn áður en hún drapst - mengunarhætta var ástæðan fyrir sérstöku leyfi til veiðanna. Fréttablaðið/Óskar
Sýkingin sem kom upp í íslenska sumargotssíldarstofninum haustið 2008 keyrði stofninn niður úr 900 þúsund tonnum í 400 til 500 þúsund tonn. Lítið sem ekkert nýsmit hefur átt sér stað síðan haustið 2010 og sýkingin úr sögunni.

Í ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma er sagt frá hinni umfangsmiklu sýkingu sem varð af völdum sníkjudýrsins Ichthyophonus hoferi (hnyð) haustið 2008 og var það í fyrsta skipti sem slík farsótt var staðfest hér við land. Ekki fyrr en fjórum árum eftir smitið komu fram ótvíræðar vísbendingar um að faraldurinn væri í rénun og horfur með styrkingu veiðistofns vænkuðust með tilkomu sterkra, lítið sýktra árganga.

Rannsóknir Hafrannsóknastofnunar sýna þetta ótvírætt og að sýkingarhlutfall í stofninum er tengt árgöngum, þar sem 2004-2006 árgangarnir hafa haft langhæsta hlutfallið og árgangur 2008 og yngri nánast ósýktir. Stofnunin hefur ályktað að sýkingin innan stofnsins hafi nánast ekkert þróast eða ágerst sem bendir til þess að síld með sýkingareinkenni drepist ekki af hennar völdum og viðbótardauði í stofninum af völdum sýkingarinnar sé því enginn.

Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun, telur að vandamálið með sýkingu síldarinnar sé úr sögunni. Sérstakar aðstæður hafi greinilega skapast á þeim árum sem árgangar sýktust að stóru leyti. Sérstaðan hér miðað við áður þekkta faraldra í til dæmis Norðursjó, sem hafa að öllu jöfnu staðið yfir í 3-5 ár, er að hér var sýkingin þaulsetnari. Hafa sérfræðingar varpað fram þeirri tilgátu að kaldari sjór hér við land hafi valdið því að sýkingin hafi tekið heldur lengri tíma að ganga yfir en áður hefur þekkst í hlýrra farvatni.

Sumargotssíldin hefur orðið fyrir fleiri áföllum, en eins og alþjóð veit drápust rúmlega 50.000 tonn samtals í síldardauðanum mikla í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi um miðjan desember 2012 og aftur í febrúar 2013.

Veturseta síldarinnar hefur nú breyst, og heldur stofninn sig ekki nær alfarið inni á Breiðafirði. Á liðnum vetri héldu aðeins um 70 þúsund tonn til í Kolgrafafirði miðað við allt að 300 þúsund tonn árin á undan.

Gísli telur breytta vetrarsetu góðar fréttir í tvennum skilningi. Hætta á síldardauða innan fjarðar í Kolgrafafirði er úr sögunni og ekki síður minni líkur á mikilli sýkingu sem að hluta til verður rakin til þess að síldin bunkar sér upp á litlu svæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×