Skoðun

Kosið um framtíðina

Hrefna Marín Gunnarsdóttir og Íris Baldursdóttir skrifar
Framundan eru kosningar um nýjan rektor Háskóla Íslands til næstu fimm ára. Rúmlega fjórtán þúsund manns geta tekið þátt í vali þessa mikilvæga embættis. Atkvæðisbærir skiptast í um 1.500 starfsmenn og um 12.500 stúdenta. Atkvæði háskólakennara, sérfræðinga og starfsmanna skólans vega um tvo þriðju og stúdenta um einn þriðja. Kosningin er rafræn og fer fram á Uglu, innri vef Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands er í eðli sínu formföst og íhaldssöm stofnun, sem tekur fáar og sjaldnast krappar beygjur. Það er því ekki víst að þeir stúdentar sem kjósa í ár finni á námstíma sínum mikil áhrif breyttra áherslna sem fylgja nýjum rektor. Sá eða sú sem fyrir valinu verður mun móta stefnu skólans til framtíðar og hafa áhrif á náms- og rannsóknartækifæri næstu kynslóðar nemenda.

Meðal umsækjenda um stöðu rektors er Dr. Jón Atli Benediktsson, prófessor við rafmagns- og tölvuverkfræðiskor og aðstoðarrektor Háskóla Íslands. Þeir sem hafa unnið með Jóni Atla hafa kynnst hæfileikum hans á mörgum sviðum. Jón Atli hefur verið virkur leiðbeinandi og vísindamaður til fjölda ára í góðu samstarfi við erlenda háskóla.  Hann hefur tekið þátt í alþjóðlegu starfi á veigamikinn hátt og reynst glöggur á tækifæri fyrir framlag til vísindavinnu. Undanfarin ár hefur Jón Atli einnig gengt starfi aðstoðarrektors vísinda og kennslu og sem slíkur borið ábyrgð á gæðamálum í Háskóla Íslands.

Besti mælikvarðinn á gæði náms er hvernig nemendur eru í stakk búnir að takast á við þær áskoranir sem mæta þeim síðar á lífsleiðinni. Jón Atli vill efla Háskóla Íslands og festa hann í sessi sem alhliða háskóla í fremstu röð meðal alþjóðlegra rannsóknarháskóla. Jón Atli hefur á ferli sínum sýnt í verki að fulltrúar lítilla þjóða hafa fullt erindi til að koma hugmyndum sínum og verkum á framfæri á alþjóðavettvangi. Hann hefur helgað lífi sínu framgangi vísinda- og tæknistarfs á Íslandi og er einn afkastamesti vísindamaður Háskóla Íslands.

Það skiptir miklu máli að starfsmenn og stúdentar nýti atkvæðisréttinn sinn í kjöri nýs rektors með hagsmuni núverandi nemenda Háskóla Íslands í huga og komandi kynslóða. Við hvetjum starfsmenn og stúdenta við Háskóla Íslands til að greiða Jóni Atla Benediktssyni atkvæði sitt í rektorskosningunni þann 13. apríl nk.

Dr. Hrefna Marín Gunnarsdóttir er rafmagns- og tölvuverkfræðingur hjá Marel hf. og Íris Baldursdóttir er rafmagnsverkfræðingur og deildarstjóri kerfisstjórnar og markaðar hjá Landsneti hf.




Skoðun

Sjá meira


×