Innlent

Meinuðu barni um afgreiðslu: "Sagði skúffuna fulla“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Friðrik Helgi er miður sín eftir daginn.
Friðrik Helgi er miður sín eftir daginn.
Gleðin breyttist fljótt í sorg þegar Erna Helgadóttir fór ásamt níu ára syni sínum, Friðriki, í leikfangaverslunina Toys R Us á Korputorgi í dag. Friðrik hefur haft mikið fyrir því að safna sér fyrir Legokassa sem hann langaði í en fékk ekki afgreiðslu í versluninni þar sem starfsmaður verslunarinnar sagði peningaskúffuna fulla.

Legokassinn langþráði kostar í versluninni 3.990 krónur og var tilhlökkunin því í hámarki þegar í verslunina var komið í dag. Eftir að hafa skoðað hvern hlut í versluninni vel og vandlega gengu þau mæðgin að afgreiðslukassanum og réttu fram peninginn.

Miður sín eftir daginn

„Við leggjum á borðið einn þúsund króna seðil, einn fimm hundruð króna seðil og afganginn í hundrað köllum. Afgreiðslukonan sagði skúffuna fulla og í raun allar skúffur fullar, meira að segja peningaskápinn. Ég segi henni að ég ætli nú samt að kaupa þetta, hún geti ekki látið það bitna á barninu að skúffan sé full og hún segir þá bara „næsti“ og afgreiðir næsta viðskiptavin,“ segir Erna í samtali við Vísi.

Erna segir Friðrik hafa verið miður sín eftir daginn. „Þetta er rosalegt svekkelsi, vonbrigði og leiði sem færist yfir á barnið. Gleðin þrýtur á sekúndu og öll spennan og hamingjan verður að ömurlegri verslunarferð. Það sem er líka svo sárt er að henni þótti ekkert sjálfsagðara en að meina barninu um afgreiðslu og bara brosti,“ segir hún.

Harmar atvikið

Lolita Guvki, vaktstjóri verslunarinnar á Korputorgi, staðfesti þetta í samtali við Vísi. Hún sagðist harma atvikið og sagðist myndu tilkynna málið til yfirstjórnar. Hún hafi þó rætt við starfsmanninn og ætli að ganga úr skugga að svona atvik eigi sér ekki stað aftur. Lolita tekur það fram að Friðrik sé velkominn í verslunina og að þau muni glöð taka á móti smáaurunum.

Uppfært 18.45: Örvar Eiríksson, verslunarstjóri Toys R Us í Korputorgi, hefur haft samband við Ernu eftir að þessi frétt birtist. Í samtali við Vísi segir hann það hafa verið mistök að taka ekki við klinkinu en verslunin hyggst bæta mæðginunum það upp.

„Hún ætlar að kíkja til mín í búðina á morgun og fá einhverjar sárabætur,“ segir Örvar. „Strákurinn ætlaði að finna sér eitthvað flott leikfang þarna og verður þá vonandi brosandi í lok helgarinnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×