Innlent

Helmingur hunda leyfislaus

Linda Blöndal skrifar
Helmingur hunda í Reykjavík er óskráður og því leyfislaus. Heilbrigðiseftirlit borgarinnar fer þó varlega í að beita ítrustu viðurlögum. 

Rúmlega 2600 hundar eru skráðir í borginni. Sami fjöldi hundaeigenda hefur hins vegar ekki fylgt lögbundinni skráningu og segir Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar að úr því sé brýnt að bæta. 



Skráningargjaldið veitir vernd 

Alls kostar 18.900 krónur að skrá hund og það sama í árlegt eftirlitsgjald. Helmingsafsláttur fæst þó ef farið er með hundinn í hlýðniskóla. Skráningargjald eftir útrunninn frest hækkar í tæpar 29 þúsund krónur. Árný segir að margt vinnist með því að skrá hundana. „Þá náttúrulega eru þeir á skrá og það eru til upplýsingar um hundana til dæmis ef þeir týnast eða hlaupa frá eigendum sínum þá eru þeir teknir í okkar vörslu og afhentir eigendum sínum. Eins er ábyrgðartrygging inni í þessu gjaldi svo þeir vera tryggðir fyrir tjóni gegn þriðja aðila".  



Trassaskapur eða kostnaðurinn 

Árný segir óljóst af hverju fólk skrái ekki hundana en fólk setur stundum fyrir sig reglur í fjölbýlishúsum þar sem þrír fjórðu íbúa þurfa að samþykkja veru dýrsins í húsinu. „Það getur náttúrulega bara verið trassaskapur og einhvers konar mótþrói líka kannski. Sumir bera fyrir sig mikinn kostnað en hann er ekkert mikill miðað við kostnaðinn við að halda hund", sagði Árný í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.  



Neyðarúrræði að taka hundinn 

Ekki er efast um að eigendurnir fari vel með óskráðu dýrin og láti bólusetja þau og örmerkja og jafnvel tryggja sérstaklega hjá tryggingafélagi. Í þessu samhengi bendir. Félag ábyrgra hundaeigenda á að þjónustu borgarinnar megi bæta og hundaeigendur viti margir illa í hvað gjaldið fer. Sem dæmi þá þurfi nú að laga óheppileg hundagerði sem hafa verið sett upp í borginni. Ekki er gengið hart að eigendum óskráðu hundanna. „Við reynum alltaf að fá fólk með góðu að skrá sína hunda og ef fólk þrjóskast við eða losar sig ekki við hundinn þá þarf náttúrulega að herða aðgerðir. Fólk fær náttúrulega einhverja fresti til að ganga frá sínum málum en ef ekkert gerist þá þarf náttúrulega jafnvel að íhuga að taka hundinn af fólki og það hefur því miður gerst", segir Árný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×