Innlent

Rúmlega 108 milljónir til ýmissa verkefna

Stefán Árni Pálsson skrifar
Níu verkefni sem tengjast beint eða óbeint 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna hlutu styrk að þessu sinni.
Níu verkefni sem tengjast beint eða óbeint 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna hlutu styrk að þessu sinni. Mynd/ljósmyndunarsafn Reykjavíkur
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur að fenginni umsögn safnaráðs úthlutað úr safnasjóði 2015, alls 108,6 milljónum króna.

Af þeirri upphæð renna tæplega 70 milljónir til einstakra verkefna en 39 milljónir í rekstrarstyrki til viðurkenndra safna um land allt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Safnaráði.

Alls bárust að þessu sinni umsóknir um styrki í samtals 130 verkefni. Styrkjum er úthlutað til 86 verkefna og eru þeir frá 250.000 kr. upp í 2 milljónir króna.

Rekstrarfélag Sarps hlaut hæsta einstaka verkefnastyrkinn að þessu sinni í verkefnið „Notendavænni Sarpur“ en flest viðurkennd söfn á Íslandi nota Sarp sem skráningarkerfi fyrir safnkost sinn og til að miðla upplýsingum um hann til almennings.

Verkefnastyrkirnir eru af margvíslegu tagi og má sem dæmi nefna styrk til Listasafns Reykjavíkur til að vinna rafræna kennslupakka fyrir útilistaverk úr safneign sinni, Gljúfrasteinn fékk styrk til að vinna fræðsluefni í tilefni af 60 ára afmæli Nóbelsverðlaunanna til Halldórs Laxness og Rannsóknasetur í safnafræðum fékk styrk til að vinna að sögu byggðasafna í landinu.

Níu verkefni sem tengjast beint eða óbeint 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna hlutu styrk að þessu sinni en íslensk söfn minnast þeirra tímamóta með ýmsum hætti á árinu. Borgarsögusafn Reykjavíkur hlaut t.d. styrk til að halda sýninguna „Íslenskar konur sem sóttu sjóinn í fortíð og nútíð“ og annan  í verkefnið „Bleika hagkerfið. Atvinnusköpun kvenna í heimahúsum 1900-1960.“

Það er mennta- og menningarmálaráðherra sem skipar safnaráð. Megin hlutverk þess er að hafa eftirlit með safnastarfsemi, vinna að stefnumörkun um safnastarf, fjalla um stofnskrár og viðurkenningar safna og veita umsagnir um styrkumsóknir úr safnasjóði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×