Innlent

94 prósent þriðju bekkinga þurfa ekki sérstakan stuðning í stærðfræði

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gva
Þorri nemenda í þriðja bekk í grunnskólum Reykjavíkurborgar, eða 94 prósent, eru taldir ólíklegir til að þurfa á sérstökum stuðningi í stærðfræði að halda. 5,6 prósent nemenda teljast þurfa sérstakan stuðning en það er 0,2 prósentustigum lægra en hlutfall ársins 2013. Þetta kemur fram í niðurstöðu stærðfræðiskimunar sem lögð var fyrir nemendur í nóvember 2014.

Niðurstaðan er lakari en árið 2012 sem var besta ár í sögu skimunarinnar, en betri niðurstaða en á árunum 2009-2011.

Þá náðu 73 prósent nemenda sem tóku prófið settu viðmiði í þrepi I og teljast því ólíklegir til að þurfa á sérstakri aðstoð að halda í stærðfræði. Um 17 prósent náðu settu viðmiði í þrepi II og eru ekki í mikilli áhættu hvað varðar námsörðugleika í stærðfræði. Um tíu prósent nemenda fóru í gegnum allt prófið og af þeim eru 4 prósent sem heldur ekki eru líkleg til að þurfa á stuðningi að halda. Mismunandi var eftir skólum hve margir nemendur eru líklegir til að þurfa stuðning í stærðfræði, allt frá engum nemanda upp í 25%.

Talnalykill var lagður fyrir nemendur í 34 grunnskólum af þeim 37 í Reykjavík sem hafa 3. bekk. Skólarnir þrír sem ekki tóku þátt eru allir sjálfstætt starfandi. Tæp 98 prósent nemenda í 3. bekk í Reykjavík tóku þátt í stærðfræðiskimuninni nú og er þátttakan sú mesta í sögu hennar. Markmið stærðfræðiskimunarinnar er að finna þá nemendur sem eru líklegir til að lenda í vanda og bregðast skjótt við með einstaklingsáætlun og/eða sérstökum stuðningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×