Innlent

Ekki enn búið að laga kjör Pólverjanna í Fossvogi

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Pólska ræstingafólkið sem ræsti tuttugu og sex þúsund fermetra á Landspítalanum hefur enn ekki fengið leiðréttingu á launum sínum fjórum mánuðum eftir að mál þess komust í hámæli.

Fjöldi fólks lýsti yfir hneykslan á kjörum ræstingafólksins á Landspítalanum í nóvember í fyrra, en þrátt fyrir stöðugar viðræður verkalýðsfélagsins og fyrirtækisins Hreint sem sér út ræstingarnar, hafa kjörin ekki breyst ýkja mikið.  

Ari Þórðarson, framkvæmdastjóri ræstingafyrirtækisins, segir að viðræður standi enn yfir við verkalýðsfélagið en málið verði leitt til lykta á næstu dögum. Málið hafi dregist á langinn, meðal annars vegna veikinda. Verði niðurstaðan sú að fyrirtækið þurfi að greiða hækkanir aftur í tímann, verði það gert.

Starfsfólkið kveinkaði sér mikið yfir vinnuálagi og mikil gagnrýni var á þrif á spítalanum.

Einhverjar  breytingar hafa nú þegar verið gerðar á vaktafyrirkomulagi en jafnmargir starfsmenn ræsta sama svæði og áður. Hann segir að þegar hafi verið gerðar breytingar á vaktaskipan sem gildi næstu þrjá mánuði, þá verði þær endurskoðaðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×