Innlent

Framsóknarflokkurinn langóvinsælastur á meðal landsmanna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gva
Framsóknarflokkurinn er óvinsælasti flokkurinn samkvæmt nýrri könnun MMR. Flestir sögðust síst vilja hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn eða 38,9 prósent. Þeim hefur fjölgað nokkuð frá því í febrúar í fyrra en þá sögðust 23,4 prósent síst vilja flokkinn í ríkisstjórn.

Þá vildi ungt fólk síður Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn en þeir sem eldri eru. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu yngsta aldurshópnum, 18-29 ára, sögðust 44 prósent síst vilja flokkinn í ríkisstjórn, saman við 34 prósent þeirra sem voru 68 ára eða eldri. Fleiri íbúar á höfuðborgarsvæðinu vildu síst hafa Framsóknarflokk í ríkisstjórn, eða 45 prósent, en þeir sem búsettir voru á landsbyggðinni, eða 28 prósent.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 16,6 prósent síst vilja hafa Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn. Þá sögðust 15,1 prósent síst vilja Samfylkinguna í ríkisstjórn, 13,6 prósent vilja síst Vinstri-græn og 12,3 prósent vilja síst hafa Pírata. Einungis 3,6 prósent vilja Bjarta framtíð síst í ríkisstjórn.

Þeir sem sögðust styðja ríkisstjórnina vildu síst hafa Samfylkinguna, eða 36 prósent, í ríkisstjórn en þeir sem ekki studdu ríkisstjórnina vildu síst hafa Framsóknarflokkinn, eða 62 prósent.

Nokkur munur var á afstöðu eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Framsóknarflokkinn sögðust 48 prósent síst vilja hafa Samfylkinguna í ríkisstjórn. Af þeim sem studdu Sjálfstæðisflokkinn sögðust 31 prósent síst vilja Samfylkinguna. Af þeim sem studdu Samfylkinguna vildu 77 prósent síst vilja hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn.

Af þeim sem studdu Vinstri-græn vildu 62 prósent síst hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn. Af þeim sem studdu Bjarta framtíð vildu 68 prósent síst hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn og af þeim sem studdu Pírata vildu 59 prósent síst hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×