Innlent

Vilja tuttugu prósent launahækkanir

Linda Blöndal skrifar
Iðnaðarmenn setja nú fyrsta sinn fram sameiginlegar kröfur en þær eru settar fram fyrir hönd sex iðnaðarmannafélaga og sambanda og alls átján þúsund félagsmanna sem eru í yfir tuttugu starfsgreinum.



„Handónýtt kerfi" 

Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna segir að félögin verði einnig með sérkröfur. „Samtarfið gengur út á það að við tökum það sem við köllum gjaldþrota og handónýtt taxtakerfi og lyfta því verulega upp í raunveruleikann", sagði Guðmundur í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.  



380 þúsund í byrjunarlaun 

Þess er krafist að byrjunarlaun iðnaðarmanna verði rúmar 380 þúsund krónur á mánuði og almenn hækkun launa 20 prósent. Lægstu kauptaxtar hækki hins vegar um allt að 37 prósent. Verði samið til lengri tíma en eins árs þá verði launin verðtryggð. Guðmundur segir engan vegin hægt að lifa af töxtum iðnaðarmanna í dag og mikla yfirvinnu sem nú tíðkist þurfi að færa inn í dagvinnutaxtann og þar með auka framleiðni. Kröfurnar séu sanngjarnar. 



Tökum ekki einir ábyrgð á stöðugleika 

„Launahækkunarkrafan er náttúrulega bara í takt við það sem hefur verið að gerast í öðrum kjarasamningum og það liggur alveg ljóst fyrir að það sem hefur átt sér stað á vinnumarkaðnum síðan stöðugleikasáttmálinn var gerður, eða síðasti samningur að þá eru það ekki bara þeir sem eru með lausa samninga og eftir eru í púkkinu núna á Íslandi, að þeir einir ætli sér að bera ábyrgð á einhverjum stöðugleika. Stjórnvöld ætla ekki að gera það og þeir sem eru búnir að sækja hundrað eða tvöhundruð þúsund króna hækkun á launum sínum á mánuði ætla ekki að bera ábyrgð á þessum stöðugleika og þá ætlum við ekki bara einir og sér að sjá um það", sagði Guðmundur.   



Meira en tuttugu starfsgreinar

Starfgreinarnar sem kröfurnar ná til eru mjög margar: Vélstjórar, málmiðnaðarmenn, matreiðslumenn, framreiðslumenn, bakarar, kjötiðnaðarmenn, starfsfólk í bílgreinum, hársnyrtifólk, málmtæknimenn, tækniteiknarar, starfmenn í byggingagreinum, garðyrjumenn, skipasmiðir, rafvirkjar, rafeindavirkjar, símamenn, símsmiðir, tæknimenn í rafiðnaði, nemar í rafiðnum, sýningarmenn, hársnyrtisveinar og bókagerðarmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×