Innlent

Dæmdur fyrir að slá mann með bjórglasi fyrir utan Paddy's

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Paddy's er skemmtistaður í Reykjanesbæ og átti árásin sér stað fyrir utan hann.
Paddy's er skemmtistaður í Reykjanesbæ og átti árásin sér stað fyrir utan hann. Vísir/Stefán
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás fyrir utan skemmtistaðinn Paddy‘s í Reykjanesbæ í  ágúst 2013.

Maðurinn var ákærður fyrir að slá annan mann í andlitið með bjórglasi þannig að það brotnaði, tekið hann svo hálstaki og hrint honum niður tröppur. Maðurinn féll við það í jörðina og hlaut áverka, meðal annars skurði á vinstra gagnauga og framan við vinstra eyra.

Ákærði í málinu játaði fyrir dómi að hafa slegið manninn en sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir því að hann hafi verið með bjórglas með hendinni. Hann hafi því ekki slegið manninn viljandi með bjórglasinu í andlitið. Þar að auki kvaðst hann fyrir dómi hafa verið í sjálfsvörn þar sem maðurinn sem hann sló hafi skömmu áður gripið um klof hans og reynt að kyssa hann.

Þá neitaði ákærði að hafa hrint manninum niður tröppurnar og tekið hann hálstaki. Vitni báru hins vegar um það að hafa séð hrindinguna en enginn bar um hálstakið.

Dómurinn taldi því sannað að ákærði hafi hrint manninum niður tröppurnar þrátt fyrir neitun hans. Þá tók dómurinn ekki til greina þá skýringu ákærðu að hann hafi ekki áttað sig á því að hann væri með bjórglas í hendinni þegar hann sló til mannsins. Að auki geti ekkert sem á undan var gengið réttlætt árásina.

Maðurinn hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Dómurinn mat það því hæfilegt að dæma hann í skilorðsbundið sex mánaða fangelsi til þriggja ára.

Dóminn í heild sinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×