Innlent

Reynt að ná Kára af strandstað

Sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
mynd/varðskipið þór
Reyna á að ná vélbátnum Kára AK-033 af strandstað í Hvammsvík í Hvalfirði á síðdegisflóði um klukkan 16 í dag. Dráttarbáturinn Magni frá Reykjavík verður notaður til verkefnisins.

Varðskipið Þór er á svæðinu og hafa skipverjar aðstoðað við undirbúning ásamt því að ætla að aðstoða við verkið eftir þörfum. Varðskipið getur þó ekki athafnað sig inni á víkinni í námunda við strandstaðinn þar sem að grunnt er og þröngt þar sem báturinn er strandaður.

Kári AK-033 strandaði í Hvammsvík að norðanverðu síðastliðinn laugardagsmorgunn eftir að hafa dregið legufærin talsverða leið undan ofsaveðrinu sem gekk yfir. Tilraun var gerð á sunnudag til að draga bátinn á flot af björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar en án árangurs.

Vélbáturinn færðist svo lengra upp í fjöruna í aftakaveðrinu sem gerði aðfaranótt mánudags. Því hefur verið beðið færis og aðstæðna til að draga hann á flot. Veðurspá næstu daga er ekki hagstæð og var því talið ákjósanlegast að ganga í verkefnið í dag, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×