Innlent

Háskólastúdentar hafa lítinn aðgang að heilsugæslu

Heimir Már Pétursson skrifar
Tilraunaverkefni á vegum heilbrigðissviðs Háskóla Íslands bendir til að full þörf sé á sérstakri heilsugæslu fyrir háskólasamfélagið. Fjöldi stúdenta er án heimilislæknis og útlendir stúdentar vita oft ekki hvert þeir eiga að leita.

Heilbrigðissvið Háskóla Íslands hefur starfsrækt svo kallað heilsutorg frá því í október og lýkur verkefninu í lok næst viku. Könnun á vegum verkefnisins sýnir að háskólanemar veigra sér oft að leita sér læknisþjónustu og bera þá helst fyrir sig kostnað.

Læknanemar fá kennslu og þjálfun inni á Landsspítalanum háskólasjúkrahúsi og í læknagarði fá tannlæknanemar þjálfun í tannlækningum. Spurningin er hvort Háskólinn þurfi einnig að reka eigin heilsugæslu.

„Það væri spennandi tilraun að minnsta kosti. En ég held að það sem við verðum að átta okkur á er að nemar í Háskólanum eiga kannski tiltölulega lítinn aðgang að heilsugæslunni eins og margir hér í höfuðborginni. Það er vandamál sem Háskólinn hefur verið að reyna að skoða með heilsutorginu,“ segir Magnús Karl Magnússon, forseti læknadeilda Háskóla Íslands.

Starfsemi heilsutorgsins hefur verið á heilsugæslustöðinni í Glæsibæ undir stjórn Sóleyjar Bender, prófessors í hjúkrunarfræði, og gefist vel en verkefnisstjóri er Mardís Sara Karlsdóttir.

„Þetta hefur gengið rosalega vel. Við höfum fengið góð ummæli bæði frá þeim sem hafa nýtt sér þjónustuna og frá nemendunum sem eru að veita þjónustuna. Þeim finnst þetta mjög góð reynsla og mjög mikilvægt að taka þátt í þessu verkefni,“ segir Mardís Sara.

En tugir nema í átta greinum á heilbrigðissviði sem sinna bæði líkama og sál hafa tekið þátt í verkefninu ásamt auðvitað kennurum og reyndu heilbrigðisstarfsfólki. Háskólanemar sem leita á heilsutorgið fá því fjölbreytta heilbrigðisþjónustu þar.

„Við erum að fá alls konar nemendur. En við erum að sjá mikið af nemendum sem eru ekki með neinn heimilislækni og mikið af erlendum nemendum sem vita kannski ekki hvert þau eiga að leita til að finna heilsugæslu og þjónustu,“ segir Mardís Sara.

Þjónusta sem þessi sé víða til hjá háskólum í útlöndum og á heilsutorgi fái nemendur meiri þjónustu frá hópi fólks en hjá einum heimilislækni.

„En oftast eru fjórir til fimm saman í teymi fyrir sig. Þannig að fólk fær miklu meiri heildræna sýn á sínum heilsufarsvandamálum en þegar það hittir bara einn aðila,“ segir Mardís Sara Karlsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×