Innlent

Yngsti flytjandinn sjö ára

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Andrea Erla Guðmarsdóttir er í Suzuki tónlistarskóla Reykjavíkur.
Andrea Erla Guðmarsdóttir er í Suzuki tónlistarskóla Reykjavíkur. vísir/valli
Um 80 ungir og upprennandi tónlistarmenn sýna hvað í sér býr á Skrautnótunni, uppskeruhátíð tónlistarskólanna í Reykjavík, sem haldin verður í Norðurljósasal Hörpu á sunnudaginn klukkan fjögur. Flytjendurnir koma frá 12 tónlistarskólum í Reykjavík og er sá yngsti 7 ára. Það er Andrea Erla Guðmarsdóttir sem er í Suzuki tónlistarskóla Reykjavíkur.

„Ég er dálítið kvíðin,“ segir Andrea Erla í samtali við Fréttablaðið. Hún segir að þetta verði í fyrsta sinn sem hún spili í Hörpunni en hún hafi sungið með mörgum leikskólum. Hún segist æfa sig í fimmtán mínútur á dag áður en hún fer í skólann. Hún mæti svo í tíma í tónlistarskólanum einu sinni í viku og annan hvern laugardag.

Guðmar Þorleifsson pabbi Andreu Erlu segir að hún hafi byrjað fjögurra ára að æfa en sé tiltölulega nýbyrjuð í suzuki náminu, sem gengur út á það að foreldrarnir æfa mikið með börnunum. Sitja með þeim á hverjum degi. „Hún er búin að vera voðalega dugleg að æfa,“ segir Guðmar og tekur fram að Andrea Erla hafi þótt mjög gaman að spila eftir að hún fór að ná tökum á því.

„Hún er meira að segja farin að nota þetta fyrir utan tónlistarskólann. Hún tók þátt í Breiðholt Got Talent á vegum frístundaheimilisins. Hún stofnaði þar hljómsveit með einni sem syngur og einni sem spilar á blokkflautu og þær spiluðu saman,“ segir hann. Hún sé því farinn að nota gítarinn víðar en bara heima. „Hún hefur spilað mikið á tónleikum á vegum tónlistarskólans en þetta er í fyrsta sinn sem hún kemur fram í Hörpu. En vonandi ekki það síðasta,“ segir Guðmar.

Tónlistarskólarnir bjóða landsmönnum á tónleikana til að fylgjast með framgangi hæfileikaríkra tónlistarnema. Þar fá tónleikagestir tækifæri til að hlýða á einleik og samleik á píanó, fiðlu, selló, saxófón, þverflautu og Hörpu svo eitthvað sé nefnt. Einnig syngja söngnemendur óperuaríur úr La Boheme og Tosca eftir Puccini. Stórsveit FÍH tónlistarskólans mætir á svæðið auk drengjakórs Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×