Innlent

Loðnuskipin leita að loðnu á Vestfjörðum

Birgir Olgeirsson skrifar
Aðalsteinn Jónsson fyrir utan Skutulsfjörð í Ísafjarðardjúpi. Skipið er nú í höfn á Ísafirði.
Aðalsteinn Jónsson fyrir utan Skutulsfjörð í Ísafjarðardjúpi. Skipið er nú í höfn á Ísafirði. Vísir/Hafþór Gunnarsson
Loðnuveiðiskip hafa leitað loðnu inn á flestum fjörðum og víkum á Vestfjörðum í dag, allt frá Patreksfirði og inn á Ísafjarðardjúp. Hafþór Gunnarsson, myndatökumaður Stöðvar 2, tók þess mynd af Aðalsteini Jónssyni SU-11 frá Eskifirði að þreifa fyrir sér fyrir utan Skutulsfjörð í Ísafjarðardjúpi í dag en skipið leitaði í var inn í Ísafjarðarhöfn nú síðdegis vegna brælu.

Daði Þorsteinsson er skipstjóri á Aðalsteini Jónssyni en hann segir enga loðnu að sjá í Ísafjarðardjúpi. „Það er vitlaust veður hérna fyrir utan og haugakvika. Það er aðallega sjólagið sem er búið að vera að aftra,“ segir Daði sem segir áhöfnina hafa næturstað á Ísafirði. „Enda hvergi betra að vera,“ segir Daði. Hann segir loðnuvertíðina hafa gengið ágætlega en veðrið hafi þó verið skelfilegt.

Vilhelm Þorsteinsson EA 11 frá Akureyri hefur einnig leitað að loðnu á Vestfjörðum en er nú í vari á Patreksfirði. „Við erum inni á Patreksfirði. Það er alltof mikill sjór til að stunda nótaveiðarnar,“ segir Sigurður Guðmundsson, stýrimaður á Vilhelm, sem segir loðnu vera á þessum slóðum.

„Við sáum loðnu í holunni sunnan við Víkurál, þannig að það er einhver loðna hérna það eru bara ekki aðstæður til að gera neitt,“ segir Sigurður sem eins og Daði er ekki sáttur við tíðarfarið undanfarnar vikur.

„Vertíðin hefur gengið ágætlega fyrir utan að tíðarfarið hefur ekki verið hagstætt. Þegar við höfum verið að hefur það gengið allt í lagi. Það er bara tíðarfarið sem hefur háð okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×