Innlent

Bjargaði hundi úr Lagarfljóti

Haraldur Gústafsson.
Haraldur Gústafsson. Vísir/GVA
Hundaeigandi austur á Héraði sýndi mikið snarræði þegar hann bjargaði fjörutíu kílóa Labradorhundi úr Lagarfljóti í gær með því að skríða út á brothættan ísinn á fljótinu.

Haraldur Gústafsson sem er bogfimiþjálfari var á gangi við fljótið með hundinn sinn um hádegi í gær eins og svo oft áður. Fleiri hundaeigendur fara þarna um og sleppa hundunum sínum lausum á svæðinu.

„Þar er fólk með alveg risastóran Labrador hund og við stoppum þarna og erum að kjafta saman, þegar hundurinn hleypur út á klakann sem er á fljótinu. Hann fer aðeins of langt og dettur niður í gegnum ísinn.“

„Hundar eru rosalega dugleg dýr og gera allt sem þeir geta til að bjarga sjálfum sér. Sjálfsbjargarhvötin er alveg gífurleg í þeim.“

Hundurinn reyndi fyrst að synda og að ná taki á ísnum til að bjarga sér sjálfur.

„Fyrst reyndum við að hvetja hundinn áfram og að reyna að fá hann til að bjarga sér sjálfur. Þegar það virtist ekki vera að ganga ákváðum ég og eigandinn að bjarga greyinu. Hann var með reipi í bílnum sem ég tók og batt utan um mig. Hann hélt í hinn endann og svo fór ég bara út á ísinn.“

Haraldur segir að um fimm metrar hafi verið að hundinum og hann skreið eftir ísnum til að komast að hundinum. Þar náði hann að toga í ólina á hundinum og toga hann upp. Hann segist ekki hafa hugsað um jökulkalt vatnið að öðru leyti en að hann lét eiganda hundsins geyma símann sinn.

Haraldur telur að hundurinn hefði drukknað ef hann hefði ekki farið á eftir honum.

„Já, ég hugsa það. Ef að hundar ná ekki einhverju taki með afturfæti ná þeir ekki að klóra sig upp.“ Hann segir hundinn hafa verið alveg merkilega sprækan eftir þetta atvik.

Haraldur bendir á að ekkert hundagerði sé á Héraði og því fari fólk mikið niður að fljóti með hundana sína. Brýn þörf sé að bæta úr því.

Svipað atvik kom fyrir hund Haralds fyrir mörgum árum síðan, þá hafi hundur hans dottið í gegnum klakann á fljótinu.

„Þá var maður sem að gerði í rauninni það nákvæmlega sama fyrir hundinn minn. Þetta var eiginlega svona „paying it forward“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×