Skoðun

Þarf ég að eiga vini?

Kristinn Lúðvíksson skrifar
Undanfarna mánuði hefur mikið verið rætt um einelti í fjölmiðlum, mikilvægt málefni sem aldrei er of mikið rætt um. Þeir sem leggja í einelti og þeir sem verða fyrir barðinu á því glíma við vanlíðan og ýmis vandamál sem þeir þurfa aðstoð við. Mig langar að tala um unglingsárin sem tengjast eineltismálum mikið og leggja áherslu á hversu mikilvæg vinátta er og það að hafa gott tengslanet í kringum sig.

Það að verða unglingur er eitt flóknasta ferli í þroska einstaklingsins. Það hefur komið fram að erfiðara er fyrir þá að öðlast góða sjálfsmynd í samfélögum þar sem þjóðfélagsbreytingar eru örar. Þar skipta jafningjarnir mestu máli og svörin við því: „Hver er ég?” fást í gegnum þá. Á þessu skeiði verða unglingar oft mjög uppteknir af eigin útliti og ímynda sér að allir séu að horfa á sig. Þeir verða hálfgerðir þrælar jafningjahópsins og verða að vera eins, gera allt eins og aðrir í hópnum og eiga það sama og hinir. Unglingurinn líkir eftir jafningjum og öðlast smám saman þekkingu á því hvernig hegðun hans og viðhorf hafa áhrif á aðra. Endurgjöf frá jafningjum og sú tilfinning að tilheyra hópnum skiptir einstaklingana öllu.

Á meðan sjálfsmyndin er ómótuð þá er það hlutverk hópsins að vera sameiginleg sjálfsmynd með ákveðnum reglum. Þegar unglingurinn hefur öðlast sterka sjálfsmynd má segja að hann sé orðinn fær um að elska og vera elskaður, hvort sem um er að ræða í kynlífi eða djúpri vináttu. Atferli og hegðun mótast ekki einungis af einstaklingnum sjálfum heldur einnig í samskiptum innan hópsins. Betri árangur er talinn nást með hópsamkomulagi en með samkomulagi milli tveggja einstaklinga vegna þeirra sterku áhrifa sem myndast innan hópsins. Staða innan hóps er því talin mikilvæg fyrir það álit sem unglingur eða barn fær á sjálfu sér.

Þetta litla innlegg ætti að gefa okkur örlitla sýn inn í það hversu mikilvægt er að eiga vini. Ég vil því hvetja alla foreldra, skóla, félagsmiðstöðvar og aðrar stofnanir til að hafa þetta í huga. Hópar eða klíkur myndast með sameiginlegum markmiðum og því er um að gera að reyna að finna þau innan hópanna. Einnig þarf að passa að allir hafi ákveðin og skýr gildi svo enginn verði útundan eða einangrist. Með hópastarf að leiðarljósi má koma í veg fyrir frekara einelti og með því myndast samheldni, virkni og mögulega vinátta.




Skoðun

Sjá meira


×