Viðskipti innlent

Marple-málið: Aðalmeðferð í september

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skúli Þorvaldsson, Magnús Guðmundsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Guðný Arna Sveinsdóttir eru ákærð í Marple-málinu.
Skúli Þorvaldsson, Magnús Guðmundsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Guðný Arna Sveinsdóttir eru ákærð í Marple-málinu. Vísir
Fyrirtaka fór fram í Marple-málinu svokallaða í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ákveðið var að aðalmeðferð málsins færi fram þann 7. september næstkomandi og er áætlað að hún taki tvær vikur. Þetta staðfestir Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, í samtali við Vísi.

Fjórir eru ákærðir í málinu. Hreiðar Már Sigurðsson, Guðný Arna Sveinsdóttir og Magnús Guðmundsson, fyrrum stjórnendur Kaupþings og Kaupþings í Lúxemborg, eru sökuð um fjárdrátt og yfirhylmingu.

Sú háttsemi sem þeim er gefið að sök vegna fjárdráttar, miðaði að því að færa um 8 milljarða króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple í eigu Skúla Þorvaldssonar án þess að lögmætar viðskiptalegar ástæður lægju þar að baki.

Skúli Þorvaldsson, eigandi félagsins Marple Holding, er ákærður aðallega fyrir hylmingu með því að halda ólöglega þessum peningum og taka þannig þátt í auðgunarbroti.

Fjórmenningarnir neituðu allir sök við þingfestingu málsins í september síðastliðnum.


Tengdar fréttir

Ákærðu í Marple-máli gætu átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi

Sú háttsemi sem fyrrverandi stjórnendum Kaupþings og Kaupþings í Lúxemborg er gefið að sök í nýrri ákæru vegna fjárdráttar, miðaði að því að færa um 8 milljarða króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple í eigu Skúla Þorvaldssonar án þess að lögmætar viðskiptalegar ástæður lægju þar að baki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×