Viðskipti innlent

Marple-málið: Guðný, Hreiðar Már, Magnús og Skúli neituðu öll sök

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá vinstri: Skúli Þorvaldsson, Magnús Guðmundsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Guðný Arna Sveinsdóttir.
Frá vinstri: Skúli Þorvaldsson, Magnús Guðmundsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Guðný Arna Sveinsdóttir. Vísir/GVA
Hreiðar Már Sigurðsson, Guðný Arna Sveinsdóttir og Magnús Guðmundsson, fyrrum stjórnendur Kaupþings og Kaupþings í Lúxemborg, og Skúli Þorvaldsson, einn helsti viðskiptavinur bankans, neituðu öll sök við þingfestingu svo nefnds Marple-máls í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Hreiðar Már, sem er fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, Guðný Arna, sem er fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings og Magnús, sem er fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, eru sökuð um fjárdrátt og yfirhylmingu. Sú háttsemi sem þeim er gefið að sök vegna fjárdráttar, miðaði að því að færa um 8 milljarða króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple í eigu Skúla Þorvaldssonar án þess að lögmætar viðskiptalegar ástæður lægju þar að baki.

Skúli Þorvaldsson, eigandi félagsins Marple Holding, er ákærður aðallega fyrir hylmingu með því að halda ólöglega þessum peningum og taka þannig þátt í auðgunarbroti. Eiga þau yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi verði þau fundin sek.

Dómur kemur næst saman 27. október þegra málsgögn verða lögð fram. Nánar má lesa um ákæruna í frétt Vísis frá því í júlí, þegar fjórmenningarnir voru ákærðir.


Tengdar fréttir

Ákærðu í Marple-máli gætu átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi

Sú háttsemi sem fyrrverandi stjórnendum Kaupþings og Kaupþings í Lúxemborg er gefið að sök í nýrri ákæru vegna fjárdráttar, miðaði að því að færa um 8 milljarða króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple í eigu Skúla Þorvaldssonar án þess að lögmætar viðskiptalegar ástæður lægju þar að baki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×