Innlent

Ökklabrotnaði í norðurljósaferð en fær engar skaðabætur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Atvikið átti sér stað í mars 2013 við Raufarhólshelli í Þrengslum þar sem farið var út að skoða norðurljós.
Atvikið átti sér stað í mars 2013 við Raufarhólshelli í Þrengslum þar sem farið var út að skoða norðurljós. Vísir/Vilhelm
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær Tryggingamiðstöðina af skaðabótakröfu erlends ferðamanns sem ökklabrotnaði í norðurljósaferð þegar hann var að stíga út úr rútu Snælands Grímssonar.

Atvikið átti sér stað í mars 2013 við Raufarhólshelli í Þrengslum. Maðurinn og kona hans fóru út úr rútunni ásamt öðrum ferðamönnum til að skoða norðurljósin en ekki vildi betur til en svo að maðurinn hrasaði í tröppum rútunnar þegar hann var á leiðinni út. Við það tvíökklabrotnaði hann og var strax farið til Reykjavíkur og maðurinn fluttur á slysadeild. Daginn eftir flaug hann svo heim til Bandaríkjanna þar sem hann gekkst undir skurðaðgerð.

Maðurinn byggði kröfu sína meðal annars á því að ökumaður rútunnar hafi ekki gætt nógu vel að því að tröppurnar niður úr rútunni væru ekki hálar svo þær sköpuðu ekki hættu fyrir farþega. Þá hafi bílstjórinn ekki varað farþegana við því að tröppurnar auk þess sem ekki hafi verið handrið við þær sem hægt var að styðjast við þegar gengið var niður.

Tryggingamiðstöðin hafnaði alfarið málatilbúnaði mannsins og sagði að rútan hefði uppfyllt allar öryggiskröfur, meðal annars með tilliti til handriða við tröppur rútunnar. Þá mótmæltu bílstjórinn sem og fararstjóri ferðarinnar því að hálka hafi verið í tröppunum.

„Fararstjóranum, sem hafi verið kominn út úr bifreiðinni en staðið við framdyrnar og séð stefnanda detta í tröppunum, virtist sem stefnandi hefði misstigið sig í tröppunum. Jafnvel þó það teldist sannað að hálka eða bleyta hafi verið í tröppum bifreiðarinnar umrætt sinn hafi verið ógerlegt að afstýra því í tilviki sem þessu,“ segir meðal annars í dómnum.

Dómari í málinu taldi því ekki sannað að slysið mætti rekja til saknæmrar vanrækslu bílstjóra rútunnar. Um óhappatilvik hafi verið að ræða og var því Tryggingamiðstöðin, fyrir hönd Snælands Grímssonar ehf., sýknað af skaðabótakröfu mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×