Innlent

Héraðsdómur Reykjavíkur metur verðtryggðan lánasamning sanngjarnan

Birgir Olgeirsson skrifar
Einar Páll Tamimi (t.v.) ásamt Gunnari V. Engilbertssyni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag eftir að úrskurður var kveðinn upp.
Einar Páll Tamimi (t.v.) ásamt Gunnari V. Engilbertssyni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag eftir að úrskurður var kveðinn upp. Vísir/GVA
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest ákvörðun sýslumanns Reykjavíkur í máli Gunnars V. Engilbertssonar gegn Íslandsbanka þar sem deilt er um lögmæti verðtryggingar. Málið snerist um fjögurra milljóna króna verðtryggt fasteignaveðlán sem Gunnar tók arið 2007 og var deilt um lögmæti verðtryggingarinnar.

Sýslumaður gerði fjárnám í heimili Gunnars vegna lánsins en Gunnar hafði krafist þess að fjárnámið yrði afturkallað vegna þess að hann telur verðtrygginguna ólögmæta.

EFTA-dómstóllinn veitti álit

Leitað var til EFTA-dómstólsins um ráðgefandi álit í málinu og var álit dómsins birt í lok ágúst. Þar kom fram að að tilskipun Evrópusambandsins um óréttmæta skilmála í neytendasamningum leggi ekki almennt bann við skilmálum um verðtryggingu veðlána í samningum milli veitenda og neytenda. EFTA dómstóllinn sagði það vera íslenskra dómstóla að taka afstöðu til þess hvort lánasamningurinn sé sanngjarn.

Héraðsdómur taldi ekki að vanræksla Íslandsbanka, á því að veita sóknaraðila fullnægjandi greiðsluáætlun þegar hann tók lánið, hefði haft slíkar afleiðingar fyrir hagsmuni Gunnars að tilefni væri til að ógilda verðbótaákvæði lánssamningsins.

Var kröfu sóknaraðila af þeim sökum hafnað og ákvörðun sýslumannsins í Reykjavíku um fjárnám í húsnæði Gunnars staðfest. Málskostnaður var látinn falla niður.

Úrskurðinum áfrýjað

„Það eru auðvitað vonbrigði að vinna ekki málið. Það er auðvitað það sem stefnt var að. Við eigum eftir að lesa úrskurðinn og forsendurnar og það liggur fyrir að þessi niðurstaða verður kærð til Hæstaréttar,“ segir Einar Páll Tamimi, verjandi Gunnars, eftir að niðurstað Héraðsdóms Reykjavíkur var ljós.

Hann segir að úrskurðinum verði áfrýjað til Hæstaréttar, það ferli taki um tvær vikur og þá fái mótaðilinn frest til að svara. Hæstiréttur tekur síðan ákvörðun um hvort málið verði flutt munnlega eða ekki og á Einar Páll frekar von á munnlegum málflutningi í Hæstarétti. Því á hann von á því að ekki verði langt í niðurstöðu Hæstaréttar.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.



Uppfært klukkan 16.29





Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×