Formúla 1

Dennis: Alonso vill jafnræði

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Alonso og Dennis virðast hinir mestu mátar út á við að minnsta kosti.
Alonso og Dennis virðast hinir mestu mátar út á við að minnsta kosti. Vísir/Getty
Ron Dennis, keppnisstjóri McLaren segir Fernando Alonso hafa þroskast mikið síðan 2007. Alonso vill að jafnræði ríki á milli hans og Jenson Button.

Alonso fór frá McLaren árið 2007 eftir miklar illdeilur við Dennis. Hann er nú kominn aftur til liðsins. Dennis segir þá báða hafa breyst mikið á síðustu átta árum.

„Það hafa allir reynt að gleyma gömlum deilum ég er klárlega spakari. Ég held að Fernando hafi þroskast mikið,“ sagði Dennis.

Hluti vandans árið 2007 var að Alonso taldi sig eiga rétt á að vera fyrsti ökumaður liðsins, slíkt var ekki í boði í herbúðum Ron Dennis. Liðsfélagi Alonso var Lewis Hamilton sem nú er heimsmeistari, þá nýliði. Dennis segir að engar kröfur um forgang fram yfir Button hafi komið fram í samningaviðræðum við Alonso.

„Nú bað Alonso um hið andstæða, algjörlega andstæða. Hann vill jafnræði. Hann sagði jafnræði, ég samþykki jafnræði. Hann bað ekki um neitt sérstakt ákvæði í samninginn um forgang,“ sagði Dennis að lokum.

Button og Alonso eru eitt mest spennandi ökumannsparið í Formúlu 1 um þessar mundir. Tveir fyrrverandi heimsmeistarar hjá stórliðinu McLaren sem er með Hondu-vél. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig þeim vegnar á tímabilinu.


Tengdar fréttir

Neale: Fyrri hluti tímabilsins verður erfiður

McLaren hefur sagt að mikil vinna sé fyrir hödum til að komast aftur í toppbaráttuna í Formúlu 1. Helsta forgangsatriðið núna sé að koma nýju Honda vélinni í keppnisform.

Svona líta nýju formúlu eitt bílarnir út | Myndir

Eftir langan vetur er loksins komið að því, nýjir Formúlu bílar hafa litið dagsins ljós. Það er alltaf forvitnilegt að sjá hvað hönnuðum liðanna dettur í hug og hver þróunin verður í framhaldinu.

Bottas: Ég vil vera í besta bílnum

Valtteri Bottas, ökumaður Williams liðsins segist vilja vera í besta möglega Formúlu 1 bílnum. Honum er sama hjá hvaða liði það er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×