Innlent

Vaðlaugin tæmd og skýringa leitað

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Elín telur ólíklegt að sárin hafi hlotist af völdum gúmmísins, hugsanlega sé um að ræða viðkvæma húð barnsins. Hún fullyrðir þó ekkert og leitar nú skýringa.
Elín telur ólíklegt að sárin hafi hlotist af völdum gúmmísins, hugsanlega sé um að ræða viðkvæma húð barnsins. Hún fullyrðir þó ekkert og leitar nú skýringa.
Vaðlaugin í Sundlaug Akureyrar var í dag tæmd eftir að ábending barst um að tveggja ára barn hefði hlotið slæm sár á fæti eftir ferð í laugina. Skýringa verður leitað og laugin tekin í yfirhalningu.

Elín H. Gísladóttir, forstöðukona Sundlaugar Akureyrar, segir að eins konar gúmmíefni sé á botni laugarinnar, en það hafi alla tíð verið talið barnvænt efni. Þetta sama efni hafi verið notað undanfarin tuttugu ár og því fátt sem bendi til þess að barnið hafi hlotið sárin af völdum þess.

„Efnið er talið barnvænt og valið sérstaklega til þess. En við erum með málið í skoðun og ætlum að reyna að finna ástæðu fyrir að þetta hafi orðið,“ segir Elín.

Sjá einnig: Tveggja ára hlaut slæm sár á fæti eftir sundferð

Áður hafði drengurinn hlotið sár eftir ferð í sundlaugina. Þau voru þó vægari, eins konar nuddsár, og gerði móðir drengsins, Petra Sif Stefánsdóttir, starfsmönnum sundlaugarinnar vart við. Sár drengsins eftir ferð hans í laugina í gær eru afar ljót og birti Petra mynd af þeim á Facebook-síðunni Múttur á Akureyri.

Fleiri mæður höfðu þar sömu sögu að segja en Elín segist aldrei hafa fengið ábendingu þess efnis áður. „Ég hef aldrei heyrt neitt svona áður og þess vegna kemur þetta mér mjög á óvart. Svona gúmmíefni hefur verið hér í að nálgast tuttugu ár,“ segir Elín. Húð barna geti þó verið viðkvæm og hugsanlega sé það raunin í þessu tilfelli. Hún vilji þó ekkert fullyrða.

Þá segir hún að nú verði beðið eftir fagaðilum til að yfirfara vaðlaugina og að þangað til verði hún lokuð. Það hafi þó verið á stefnuskránni að taka vaðlaugina í yfirhalningu í byrjun árs

„Við bara vonum að við finnum ástæðuna og ef eitthvað þarf að lagfæra þá gerum við það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×