Innlent

Tveggja ára hlaut slæm sár á fæti eftir sundferð á Akureyri

Bjarki Ármannsson skrifar
Tveggja ára sonur Petru hlaut sárin eftir sundferð í gær.
Tveggja ára sonur Petru hlaut sárin eftir sundferð í gær. Vísir/Auðunn
„Þau eru náttúrulega með viðkvæma húð, krakkarnir, en ég hef aldrei lent í þessu svona,“ segir Petra Sif Stefánsdóttir um sárin sem tveggja ára sonur hennar hlaut eftir ferð í Sundlaug Akureyrar í gær. Hún deildi myndum af sárunum í lokuðum Facebook-hópi þar sem fleiri mæður segja börnin sín hafa fengið svipuð sár eftir heimsókn í sundlaugina.

Nýlega skipt um botn í pottum

Petra segir að son hennar svíði ennþá mjög og að fætur hans séu mun rauðari en meðfylgjandi myndir gefi til kynna.

„Fæturnir líta mjög illa út,“ segir hún. „Það voru fyrst svona brunablöðrur og núna eru þeir allir úti í sárum.“

Hún segir að drengurinn hafi verið að skríða á hnjám í grunnum potti í lauginni þar sem gúmmíefni er í botninum. Hún hafi síðast farið með hann í laugina síðasta sumar, þá hafi hann fengið einhver nuddsár í kjölfarið en mun vægari. Þær upplýsingar fengust frá starfsmanni Sundlaugar Akureyrar að skipt hafi verið um gúmmí á botninum á tveimur pottum nú í vetur.

Hyggst láta starfsfólk vita

Í ummælum við myndir Petru í hópnum „Múttur á Akureyri“ segja nokkrar konur svipaða sögu af börnum sínum og tengja sárin við ferðir í laugina.

„Ég lenti í þessu um daginn með stelpuna mína,“ skrifar ein. „Hún var einmitt mikið að leika sér og hoppa ofan í og svona ... voru einmitt fyrst blöðrur sem svo urðu að sárum eins og á myndinni.“

Tvær ráðleggja Petru að hafa samband við starfsfólk laugarinnar og láta vita af þessu. Í samtali við Vísi segist hún ætla að senda þeim myndir af sárum sonar síns á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×