Innlent

Þora ekki að bera vitni af ótta við Skeljagrandabróður

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Aðalmeðferð málsins mun fara fram í Héraðsdómi Reykjaness
Aðalmeðferð málsins mun fara fram í Héraðsdómi Reykjaness Vísir
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að Kristján Markús Sívarsson þurfi ekki að víkja úr dómssal þegar þrjár 17 ára stúlku gefa skýrslu í máli lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn honum.

Saksóknari krafðist þess að Kristjáni yrði vísað úr þinghaldi á meðan stúlkurnar bæru vitni en Kristján er ákærður fyrir að hafa tvívegis slegið vagnstjóra í strætisvagni í andlitið með þeim afleiðingum að tönn í honum brotnaði. Átti atvikið sér stað í mars 2014.

Samkvæmt skýrslum stúlknanna hjá lögreglu var Kristján mjög ógnandi þegar umrædd líkamsárás átti sér stað og vitnin orðið hrædd. Þær hafi síðan séð í blöðunum hver hann væri og töldu að sér stæði ógn af honum þar sem hann væri þekktur ofbeldismaður.

Í dómi héraðsdóms, sem Hæstiréttur vísar í, er ekki fallist á þennan málatilbúnað ákæruvaldsins, meðal annars á þeim forsendum að vitnin væru ekki brotaþolar í meintri líkamsárás og ekki var sýnt fram á nein samskipti þeirra við ákærða á vettvangi árásarinnar eða síðar.

„Ekki verður af gögnum málsins ráðið að nærvera ákærða geti orðið nefndum vitnum sérstaklega til íþyngingar. Engin vottorð hafa verið lögð fram svo sem frá sálfræðingum um að nærvera ákærða gæti haft áhrif á framburð vitnanna. Hefur að mati dómsins ekki verið sýnt fram á með nægjanlegum hætti eins og máli þessu er háttað, að skýrslutakan sé vitnunum sérstaklega til íþyngingar og kunni að hafa áhrif á framburð þeirra.“

Því var kröfunni  hafnað og má Kristján vera í dómssal þegar stúlkurnar bera vitni. 

Dóm Hæstaréttar má sjá í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×