Handbolti

Dagur Sig: Höfum ekki ennþá þurft að vera með bensínið í botni

Arnar Björnsson í Katar skrifar
Dagur Sigurðsson á möguleika á því að koma þýska handboltalandsliðinu í undanúrslit í dag en Þjóðverjar mæta þá heimamönnum í átta liða úrslitum á HM í Katar.

Dagur Sigurðsson lætur fátt raska ró sinni. Hann segist ekkert vera farinn að spá í það hvort Þjóðverjar komist í úrslitaleikinn. Hann segist vera með 2 góða markverði og eigi eftir að ákveða hvort byrji og hvor þeirra ljúki leiknum

Katarar hafa aldrei áður náð jafn langt á heimsmeistaramóti, gæti það verið vopn fyrir Þjóðverja?

"Nei þeir hafa ekki komist þetta langt en það hafa margir af mínum mönnum ekki heldur. Lið þeirra er sterkt, markverðirnir eru öflugir og þeir eru einnig með góðar skyttur og svo eru þeir farnir að spila nokkuð góðan varnarleik. Þetta verður erfiður leikur og svo er umgjörðin þeim í hag, þeir eru jú á heimavelli," segir Dagur.

Fyrirfram eru þetta mótherjar sem þú hafðir ekki mestar áhyggjur af?

"Nei og kannski er það okkur í hag núna að hafa unnið riðilinn og vera ekki að mæta liðum eins og Frökkum sem eru kannski ennþá sterkari og með meiri reynslu en Katarar," segir Dagur.

Þið klárið Egyptana snemma og þið eruð enn að leyfa ykkur að gefa ekki allt í þessa leiki"

„Já það er rétt við höfum ekki ennþá þurft að vera með bensínið í botni í leikjunum og það er góð tilfinning að eiga eitthvað eftir á tanknum þegar við mætum Katar. Þetta verða líkamleg átök og hiti og þá er gott að eiga einhverja innistæðu," segir Dagur.

Þú ert með sjóðandi heita markverði, Heinewetter er búinn að verja vel og Lichtlein stórkostlegur á móti Egyptum.

„Já þeir eru búnir að vera mjög góðir og nú þarf ég bara að ákveða hvor á að byrja og hvor klárar þetta í lokin," segir Dagur.

Er það ekki að verða höfuðverkur hjá þér að velja liðið?

„Nei þetta er svipuð staða og í Berlín þar sem við erum með 2 góða markverði. Þetta snýst bara um að halda þeim báðum í stuði og leyfa þeim að blómstra," segir Dagur.

Hvernig taka leikmennirnir þessu sem allir vilja spila í 60 mínútur í hverjum leik?

„Þeir eru alveg slakir og eru bara að hugsa um liðið eins og allir þeir sem sitja fyrir utan liðið á bekknum. Við reynum að hafa eitthvert hlutverk fyrir hvern og einn, stundum er það stórt og stundum er það lítið og menn verða bara að lifa með því," segir Dagur.

Ertu farinn að gæla við þá hugsun að þið farið alla leið í úrslitaleikinn?

„Nei, ég verð að viðurkenna að ég er ennþá rosalega "fókusaður" á næsta verkefni. Nú er það bara Katar og ekkert vesen í kringum það," segir Dagur.

Það er hægt að sjá allt viðtalið við Dag hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Dagur gefur mömmu skýrslu eftir hvern leik

Þýskaland mætir í dag heimamönnum í Katar í 8-liða úrslitum á HM í handbolta. Þjóðverjar, undir stjórn Dags Sigurðssonar, hafa spilað frábærlega á mótinu og fóru létt með Egyptaland í 16-liða úrslitunum.

Carsten Lichtlein: Dagur heldur ekki langar ræður

Carsten Lichtlein stóð í marki Þjóðverja í sigri þeirra á Egyptum í 16 liða úrslitum. Þessi rúmlega tveggja metra kappi var stórkostlegur í leiknum, varði 20 af þeim 36 skotum sem hann fékk á sig. Þrjú af fimm vítaköstum Egypta höfnuðu í skrokknum á Lichtlein sem spilar með Gummersbach í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×