Innlent

Skýrsla um áhrif verkfallsins tilbúin á mánudaginn

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Læknar og ríkið undirrituðu nýja kjarasamninga fyrr í mánuðinum.
Læknar og ríkið undirrituðu nýja kjarasamninga fyrr í mánuðinum. Vísir/Vilhelm
Engar tilkynningar um alvarleg atvik hafa enn borist Landlæknisembættinu í tengslum við læknaverkfallið. Embættið vinnur nú úttekt á áhrifum verkfallsins og skilar heilbrigðisráðherra skýrslu um málið á mánudaginn.

Læknar og ríkið undirrituðu nýja kjarasamninga fyrr í mánuðinum. Umfangsmiklar verkfallsaðgerðir lækna höfðu þá staðið yfir með hléum frá því í lok október. Þær höfðu það meðal annars í för með sér að Landspítalinn frestaði yfir 700 skurðaðgerðum. Strax þegar samingar tókust óskaði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra eftir því við Landlæknisembættið að það myndi skoða áhrif verkfallsins. Birgir Jakobsson landlæknir á von á að skýrsla Landlæknisembættisins verði send heilbrigðisráðherra á strax eftir helgina.

„Athugunin felst í því að sjá hvaða áhrif hefur verkfallið haft á lengd biðlista, hvort það hafi einhver alvarleg tilvik eða atvik komið upp, og síðan höfum við líka spurt eftir því hvaða aðgerðir séu ráðgerðar raunverulega til þess að komast aftur í jafnvægi. Við erum ekki búin að fá svör frá öllum því miður það hefur dregist þannig að við reiknum með að skila ráðherra skýrslu á mánudaginn,“ segir Birgir Jakobsson.

Birgir segir athugun embættisins ná til allra heilbrigðisstofnana á landinu svo og spítalanna. Þá segir hann Landlæknisembættið  enn engar ábendingar hafa fengið um það að alvarleg atvik hafi komið upp í tengslum við verkfallsaðgerðir lækna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×