Handbolti

Gaupi í HM-kvöldi: Alexander var of spenntur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hörður, Gaupi og Júlíus fóru yfir leik Íslands og Alsír í HM-kvöldinu.
Hörður, Gaupi og Júlíus fóru yfir leik Íslands og Alsír í HM-kvöldinu. vísir/pjetur
Guðjón Guðmundsson og Júlíus Jónasson voru gestir Harðar Magnússonar í HM-kvöldi á Stöð 2 Sport 3 í kvöld þar sem þeir fóru yfir leik Íslands og Alsír á HM í Katar.

Eftir skelfilega byrjun fóru íslensku strákarnir í gang í seinni hálfleik og unnu að lokum átta marka sigur, 32-24.

Sóknarleikurinn gegn Alsír var mun betri en gegn Svíþjóð á föstudaginn þegar íslenska liðið skoraði aðeins 16 mörk.

„Sóknarleikurinn var betri hlutinn í leiknum og við getum ekki mikið kvartað yfir honum. En það er samt sem áður margt sem hægt er að laga,“ sagði Júlíus um sóknarleik Íslands í dag.

Júlíus fór m.a. yfir innleysingar í sóknarleik Íslands og tók nokkur dæmi um þær. Hann tók það fram að að það væri mikilvægt að Snorri Steinn Guðjónsson léti ekki bremsa sig af þegar hann væri að leysa inn, en innleysingar hans spila stóran þátt í sóknarleik Íslands og hafa lengi gert.

Sérfræðingarnir ræddu einnig um frammistöðu Alexanders Petersson sem er að spila á sínu fyrsta stórmóti með Íslandi síðan á Ólympíuleikunum í London 2012.

„Mér finnst hann of spenntur og á yfirsnúningi,“ sagði Guðjón og bætti við: „Mér finnst reyndar allt liðið, í þessum tveimur leikjum, hafa verið á pínulitlum yfirsnúningi.“

Allt innslagið má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×