„Hér blómstrar Amma Dídí. Hún treður upp við hin ýmsu tilefni og stendur fyrir vikulegum gönguferðum, History Walk, þar sem ferðamenn fá fræðslu um svæðið,“ útskýrir Anna Margrét og skellir upp úr þegar hún bætir við að hún hafi ekki haft hundsvit á staðháttum fyrr en hún mætti, svo oftar en ekki taki hún sér skáldaleyfi. „Það er kannski verra þegar innfæddir mæta í ferðina, þá hef ég alveg svitnað.“

„Þetta byrjaði allt mjög smátt en við vinur minn, Árni Grétar, vorum fengin til að skapa dúóið Dídí og Dúa fyrir ferðamenn á vegum Pink Iceland. Þá vorum við með leiðsöguferðir í karakterunum,“ segir Anna Margrét. Aðspurð um hvaðan innblásturinn komi rekur hún upp hláturroku og segir margt líkt með Ömmu Dídí og móður sinni. „Ég hef samt ekki sagt henni frá því, en það er margt í Ömmu Dídí sem hún á. En svo gríp ég til setningar sem ég fæ lánaðar úr ýmsum áttum og mér finnst Ömmu Dídí-legar.“
Anna Magga segir Ömmu Dídí ná til flestra og segir stóran draum þeirrar síðarnefndu vissulega tengdan Spaugstofunni. „Hún er mikið fyrir yngri menn, hún Dídí," skýtur Anna Magga inn og skellihlær.