Innlent

Ísland fyrir EFTA dómstólinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/EFTA
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að vísa tveimur málum gegn Íslandi til EFTA dómstólsins. Málin snúa að því að Ísland hefur brugðist skyldu sinni til að innleiða EES-gerðir á réttum tíma. Þar að auki var ákveðið að einu máli gegn Lichtenstein yrði einnig vísað til dómstólsins.

Á vef eftirlitsstofnunarinnar segir að bæði ríkin hafi látið undir höfuð leggjast að innleiða tilskipun 2011/83/ESB um réttindi neytenda í landsrétt sinn. Tilskipunin er mikilvægur hluti af umfangsmiklum reglum sem er ætlað að tryggja rétt neytenda hvarvetna á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og stuðla þannig að virkum innri markaði.

Ísland og Lichtenstein áttu að innleiða tilskipunina fyrir 1. febrúar.

Þar að auki hefur Ísland ekki innleitt tilskipun 2009/126/EB um endurheimt bensíngufu. Markmið með henni er að bæta loftgæði með því að draga úr losun bensíngufu út í andrúmsloftið. Sömuleiðis átti sú tilskipun að vera innleidd fyrir 1. febrúar.

Á vef Eftirlitsstofnunarinnar segir að vísun máls til EFTA-dómstólsins sé lokaskrefið í formlegu samningsbrotamáli á hendur EFTA-ríki. Áður en kemur til þess hefur Ísland verið upplýst um afstöðu ESA og gefinn kostur á að koma á framfæri röksemdum sínum sem og að ljúka málinu með því að innleiða viðeigandi löggjöf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×