Innlent

Ekki hefur tekist að fækka málum sem fara fyrir EFTA dómstólinn

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Markmið í Evrópustefnu stjórnarinnar um að fækka málum fyrir EFTA dómstólnum virðist fjarlægt.
Markmið í Evrópustefnu stjórnarinnar um að fækka málum fyrir EFTA dómstólnum virðist fjarlægt. Vísir/EFTA
Frá því að Evrópustefna ríkisstjórnarinnar var kynnt í mars árið 2014 hefur málafjöldi gegn Íslandi fyrir EFTA dómstólnum fjölgað frá því sem var árið áður en stefnan var sett. Sérstakt markmið er sett í stefnunni um að engin mál verði höfðuð gegn Íslandi í ársbyrjun 2015 en þegar hafa tvö mál verið höfðuð fyrir dómnum.



Árið 2013 voru átta mál rekin gegn Íslandi fyrir dómstólnum en árið 2014 voru málin þrettán, að því er fram kemur í gögnum frá ESA, eftirlitsstofnun EFTA. Tvö mál hafa svo verið höfðuð það sem af er þessu ári. Það er því ljóst að markmið Evrópustefnunnar hefur ekki verið náð.



Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að stefnan sé fín en að henni sé ekki fylgt. „Það er deginum ljósara að framkvæmd stenfunnar er í algjörum ólsetri,“ segir hann og bætir við að það helgist af því að ekkert fjármagn hafi fylgt Evrópustefnunni til að vinna upp málahalann.



Félag atvinnurekenda tók saman tölur um fjölda mála gegn Íslandi fyrir dómstólnum frá því að stefnan var sett. Niðurstaðan er að ellefu mál hafi farið fyrir dóminn á tímabilinu. „Ísland er búið að standa sig langverst af öllum EES-ríkjunum,“ segir hann. 



„Fyrirtæki eiga mikið undir því að það sé sama lagaumhverfi í öllum ríkjum EES. Það er forsendan fyrir aðgangi að þessum stærsta innri markaði í heimi,“ segir Ólafur. „Stefnan er fín og ef það tekst að hrinda henni í framkvæmd þá er mikil bót af því en það er ekkert sem bendir til þess að það sé að ganga.“


Tengdar fréttir

Ísland fyrir EFTA dómstólinn

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að vísa tveimur málum gegn Íslandi til EFTA dómstólsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×