Innlent

„Það er afskaplega lítið sem við getum gert“

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Lögregla getur ekki aðhafst vegna aksturs hópbifreiða í íbúðahverfum þar sem engin lög banna slíkan akstur. Varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir lausnina felast í aukinni samvinnu milli ferðaþjónustunnar og Reykjavíkurborgar.

Sagt var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að íbúar í Þingholtunum væru margir orðnir þreyttir á akstri hópbifreiða í þröngum íbúðagötum. Engin lög eru til um akstur hópbifreiða í íbúðahverfum en borgin hefur sett tilmæli um að aka ekki vissar götur.

„Það er afskaplega lítið sem við getum gert, við reynum að bregðast við þessum kvörtunum og erum í ágætis sambandi við rútufyrirtækin um að reyna takmarka akstur og aðstoða þá eftir bestu getu. En fyrst og fremst er þetta Reykjavíkurborg sem er veghaldari í þessu tilviki. Þeir geta sett reglur með samþykki lögreglustjóra, lögreglustjóri fær tillögur frá Reykjavíkurborg eða sveitafélaginu um bann við tiltekinni umferð og getur þá bannað þessa umferð,“ segir Árni Friðleifsson, varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir að rekja megi málið aftur til ársins 2008 þegar Samtök ferðaþjónustunnar hafi haft samband við Reykjavíkurborg til þess að greiða fyrir umferð hópferðarbíla á tilteknum götum. Í kjölfarið hafi komið tilmæli frá borginni um að stærri hópferðarbílar ættu ekki að aka vissar götur.

„Flest rútufyrirtæki hafa farið að þessu og almennt eru menn ekki að setja út á það en auðvitað geta mistök alltaf átt sér stað og það eru ekkert allir sem þekkja reglurnar,“ segir Þórir Garðarsson, varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar og stjórnarformaður Iceland Excursions/ Grayline.

Það eru hins vegar engar reglur sem gilda um akstur hópferðabifreiða í tilteknum götum.

„Það er búið að ákveða og leyfa hótel á ákveðnum stöðum sem eru kannski of nálægt íbúðabyggð að sumra manna mati,“ segir Þórir.

Margir hafa sagt miðbæjargötur of þröngar fyrir akstur slíkra bifreiða.

„Miðbærinn er of lítill fyrir bíla að stærri gerð, tólf til fimmtán metra bílar eiga ekki að vera fara inn í þessar þröngu götur. En þá þarf að gera hliðarráðstafanir. Lausnin er aukið samstarf og samráð milli ferðaþjónustunnar og Reykjavíkurborgar. Það er vilji til staðar hjá báðum þessum aðilum. Við erum að vinna í því að koma á fundi til þess að fara yfir þessi mál og stytta þessar boðleiðir og koma með lausnir,“ segir Þórir. 


Tengdar fréttir

Bakkaði að eldhúsglugganum

Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs segist hafa orðið steinhissa enda ljóst að bílstjórinn megi ekki gera þetta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×