Innlent

Leyfa rafeindafuglavörn til reynslu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hindra á að ungarnir við Lækinn í Hafnarfirði hverfi ofan í ræsi og vernda þá með ýmsum öðrum aðferðum.
Hindra á að ungarnir við Lækinn í Hafnarfirði hverfi ofan í ræsi og vernda þá með ýmsum öðrum aðferðum. Fréttablaðið/GVA
Ósk Guðmundar Fylkissonar um að hann hafi áfram umsjón með fuglalífi við Hamrakotslæk allt frá Elliðavatnsvegi niður að Strandgötu var samþykkt í umhverfis- og framkvæmdaráði Hafnarfjarðar í gær.

Auk þess að setja upp varnir á hólmum og gervigreiður með öðrum aðgerðum til að verja hreiður og unga líkt og síðustu tvö ár vildi Guðmundur fá að setja upp „hárkamba“ ofan á 130 ljósastaura meðfram læknum. Þeir eru ætlaðir til að hindra vargfugla í að voma yfir ungum fuglanna sem verpa við lækinn.

„Hárkambana og límkítti til að festa þá niður sé ég sjálfur um að útvega bænum að kostnaðarlausu og er tilbúinn að leggja fram vinnu við að koma þeim fyrir. Ég myndi aftur á móti þiggja að bærinn legði til vinnulyftu eða körfubíl til að framkvæma þetta,“ segir Guðmundur í bréfi til framkvæmdasviðs Hafnarfjarðarbæjar.

Þess utan lagði Guðmundur til að komið yrði upp rafeindafuglavörn við Hörðuvelli og sagði það geta fækkað hárkömbunum um helming. Einnig stakk hann upp á matarstöndum fyrir smáfugla annars vegar og hrafna hins vegar.

Umhverfisnefndin hafnaði matarstöndunum og hárkömbunum en samþykkti að rafeindavörnin yrði sett upp til reynslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×