Innlent

Landsmenn nú 329 þúsund

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/daníel
Nú í janúar voru landsmenn 329.100 talsins og hafði fjölgað um 3.429 frá sama tíma í fyrra. Það jafngildir fjölgun landsmanna um eitt prósent. Konum og körlum fjölgaði sambærilega á árinu og voru karlar 1.272 fleiri en konur 1. janúar 2015. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar.

Mikil fólksfjölgun var á höfuðborgarsvæðinu en þar voru íbúar 2.530 fleiri 1.janúar en ári fyrr. Það jafngildir 1,2 prósenta fjölgun íbúa á einu ári. Fólksfjölgunin var hins vegar hlutfallslega mest á Suðurnesjum. Þar fjölgaði um 2,1 prósent eða 466 frá síðasta ári.

Á Suðurlandi fjölgaði fólki um 280 einstaklinga, eða 1,1 prósent, og um 125, eða 0,8 prósent, á Vesturlandi. Minni fólksfjölgun var á Norðurlandi eystra, 0,5 prósent.

Fólksfækkun var á þremur landsvæðum. Á Norðurlandi vestra fækkaði um 108 manns, eða 1,4 prósent. Á Austurlandi fækkaði um 28 einstaklinga, eða 0,2 prósent og á Vestfjörðum fækkaði um tvo, eða 0,02 prósent.

Þá voru kjarnafjölskyldur 79.354 í janúar 2015 en 78.780 ári áður.

Fjöldi sveitarfélaga á landinu er óbreyttur. Alls var íbúatala sveitarfélaga undir 100 en undir 1.000 í 41 sveitarfélagi. Einungis níu sveitarfélög höfðu yfir 5.000 íbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×