Innlent

Hér fáum við tækifæri til að vera "nördaleg“ saman

Hrund Þórsdóttir skrifar
Ekkert var til sparað við gerð margra búninganna og sjá mátti ýmsar kunnuglegar persónur, t.d. úr vísindaskáldsögum og Disney myndum.
Ekkert var til sparað við gerð margra búninganna og sjá mátti ýmsar kunnuglegar persónur, t.d. úr vísindaskáldsögum og Disney myndum.
Þúsundir áhugamanna um myndasögur og vísindaskáldskap komu saman í Lundúnum um helgina til að taka þátt í hinni risastóru London Super Comic Book convention og búningakeppni.

Ekkert er til sparað við gerð margra búninganna og eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði mátti sjá ýmsar kunnuglegar persónur, t.d. úr vísindaskáldsögum og Disney myndum. Spurður um af hverju hann tæki þátt í hátíðinni og keppninni sagði uppvakningurinn Paul Labelle einfaldlega: “Tjah, hvað annað ætti maður svo sem að gera á sunnudegi en að klæða sig upp sem uppvakning?”

Hátíðin, sem er sú stærsta sinnar tegundar á Bretlandi, var nú haldin í fjórða sinn og margir sjá búningakeppnina sem mikilvægt tjáningar- og listform. “Ég hef eignast marga vini í gegnum þetta áhugamál. Við erum öll “nörd” og hér fáum við tækifæri til að vera “nördaleg” saman,” segir annar þátttakandi, Neil Hancock.

Ross Cobbold sigraði keppnina að þessu sinni og kom hann fram í gervi Úrsúlu úr teiknimyndinni um Litlu hafmeyjuna. “Ég sá sýninguna um Litlu hafmeyjuna á Broadway og eftir það fékk ég áhuga á Disney og búningum. Það var þessi persona og þessi búningur sem kveiktu neistann hjá mér og nú er þetta stór hluti af lífi mínu,” sagði sigurvegarinn, ánægður með daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×